Mjög fáir bólusettir greinst með veiruna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Mjög fáir bólusettir hafa greinst með veiruna hér á landi. „Þeir hafa annað hvort verið nýbúnir að fá fyrri sprautuna eða þá seinni þegar þeir hafa verið að greinast og við höfum ekki séð dæmi þess að þetta fólk hafi veikst alvarlega,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Síðustu daga hafa greinst nokkur kórónuveirusmit eftir fjóra smitlausa daga um hvítasunnuhelgina. Smitin eru af sama afbrigði og greindist hjá tveimur starfsmönnum tískuvöruverslunarinnar H&M í síðustu viku.  

Þórólfur segir að mjög fáir bólusettir hafi greinst með veiruna hér á landi og að ekki sé vitað hvort þeir hafi smitað aðra. „Þeir hafa verið hluti af hópi eða fjölskyldu og við vitum því ekki nákvæmlega hvar smitið byrjar.“ 

Rúmlega helmingur þeirra sem til stendur að bólusetja hafa fengið minnst einn skammt og nærri þriðjungur telst fullbólusettur. 

Þórólfur vill ekki segja hvort fólk verði kærulausara eftir að það hefur fengið meldingu um að það sé fullbólusett. „Við höfum verið að hamra á því að bóluefnið er ekki komið með fulla virkni fyrr en tveimur til þremur vikum eftir sprautuna og ég vona að fólk meðtaki það.“ Og hann vill bólusetja sem flesta.„Verndin er bæði fyrir einstaklinginn sem er bólusettur en það verður líka að hafa það í huga að því fleiri sem eru bólusettir því minni vandamál munum við sjá í samfélaginu.“

Í næstu viku verða um fjórtán þúsund skammtar gefnir á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður bólusett með bóluefni frá Pfizer, Moderna og Janssen. Þá verður bæði gefinn seinni og fyrri skammtur. Í vikunni þar á eftir er von á um 15 þúsund skömmtum frá Pfizer sem verður einnig blanda af fyrri og seinni skammti. Þá verður einnig bólusett með öðrum bóluefnum, samtals um 20.000 skammtar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV