Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meira en tíunda hver kona á Íslandi þjáist af átröskun

27.05.2021 - 18:54
Yfir hundrað sjúklingar eru nú á biðlista hjá geðsviði Landspítalans og BUGL vegna átraskana. Biðtíminn er meira en eitt og hálft ár. Forsvarskonur samtaka um átraskanir segja úrræðaleysið óboðlegt og umræðuna nær enga. Meira en tíunda hver kona og yfir fimm prósent karla glíma við átröskun.

Algengari meðal kvenna

Átraskanir eru algengir og alvarlegir geðsjúkdómar sem einkennast af miklum truflunum á mataræði. Þær þróast hratt og geta leitt til dauða. Dánartíðni vegna átraskana er ein sú hæsta af öllum geðsjúkdómum. 

Átröskunarsjúkdómar eru mun algengari meðal kvenna og þar er blönduð átröskun algengust, en tæplega fimm prósent kvenna og fjögur prósent karla kljást við sjúkdóminn. Átkastaröskun er næst-algengust - stjórnlaus og endurtekin átköst. Tæplega tvö prósent kvenna glíma við búlimíu, sem einkennist af ofáti og losun hitaeininganna í kjölfarið.  Lystarstol, eða anorexía, er sjaldgæfasta átröskunin, með um 1,5 prósenta algengi meðal kvenna og 0,2 prósent meðal karla. Henni fylgir sjúkleg megrun og brengluð líkamsímynd. Meira en tíu prósent kvenna glímir við eitthvert form átröskunar og yfir fimm prósent karla. 

„Ég skammast mín ekki fyrir að hafa glímt við átröskun, það var bara eðlilegt í mínu lífi að díla við mín vandamál með þessum hætti,”

segir Elín Vigdís Guðmundsdóttir, ein stofnanda SÁTT, samtaka um átraskanir. Hún veiktist alvarlega fyrir fimmtán árum, og fór í þriggja mánaða meðferð til Kanada. „Og það var bara lífsnauðsynlegt. Og ég er alveg sannfærð um að ég væri ekki á lífi ef ég hefði ekki fengið þessa meðferð.” Elín byrjaði að vinna sem jóga- og hugleiðslukennari fyrir ári hjá átröskunarteymi Landspítalans. 

„Þá sá maður fljótt að meðferðin er alls ekki fullnægjandi. Og síðustu tvö árin hafa biðlistar verið að lengjast og lengjast og eru nú orðnir mjög langir,” segir Elín. „Það er óverjandi að staðan sé eins alvarleg og hún er akkúrat núna. Maður verður veikur hratt og maður veikist mikið. Og það hefur mjög alvarlegar afleiðingar.” 

Landspítalinn nær eina úrræðið í boði

Fyrir flesta er biðtíminn eitt og hálft til tæp tvö ár, og forgangsraðað er eftir alvarleika. Það getur verið áfall að þurfa að bíða svona lengi, margir veikjast meira í biðinni og sumir hætta við.

„Eins og staðan er í dag, þá eru 96 einstaklingar að bíða eftir þjónustu hérna fullorðinsmegin í átröskunarteyminu og fimmtán unglingar að bíða á BUGL,”

segir Heiða Rut Guðmundsdóttir, stjórnandi átröskunarteymis LSH. Hún kallar eftir aðkomu heilsugæslunnar og niðurgreiðslu til sérfræðinga til að dreifa álaginu. Landspítalinn er nú nær eina úrræðið í boði. 

Eins og við höfum gefist upp á umræðunni

Eva Dögg Rúnarsdóttir jógakennari er ein þeirra sem deilir reynslu sinni af átröskun á rafrænum fundi SÁTT á föstudagsmorgninum 28. maí 2021. 

„Mér finnst umræðan bara ekki vera til staðar í dag, miðað við fyrir tíu árum og fyrir tuttugu árum, þá var hún meiri og sjáanlegri. Það er eins og við höfum bara gefist upp á umræðunni og bara samþykkt þetta. Og núna er þetta að grassera út um allt og enginn tæklar það,” segir Eva.

„Umræðan er líka lituð af fáfræði og fordómum. Svona "fáðu þér bara eitthvað að borða". Það þarf klárlega að tala hærra.”