Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Með COVID á toppi Everest

27.05.2021 - 10:49
Erlent · Everest · Umhyggja
Mynd með færslu
 Mynd: Með Umhyggju á Everest
Þeir Sigurður B. Sveinsson og Heimir F. Hallgrímsson, sem náðu tindi Everest-fjalls þann 24. maí, hafa greinst með COVID-19. Þeir fundu báðir fyrir einkennum á leiðinni á toppinn en segja heilsuna betri nú, þeir eru komnir í grunnbúðir undir læknishendur og eru þar í einangrun.

Félagarnir fóru í COVID-19 próf áður en þeir héldu á toppinn en þá höfðu þeir ekki smitast. Þeir fóru að finna fyrir hósta þegar þeir voru komnir langleiðina upp og var farið að gruna að þeir hefðu smitast, en nokkuð hefur verið um smit meðal fjallgöngumanna síðustu vikurnar.

Þeir fóru á tindinn til að safna fé fyrir Umhyggju, félag langveikra barna.

„Á niðurleiðinni fórum við báðir að finna fyrir aukinni þreytu, hósta og óþægindum. Heimir átti fyrst erfitt niðurleiðar. Í búðum 2 vorum við báðir orðnir afar slappir af hóstaköstum, hausverkjum og annarri þreytu,“ segir í tilkynningu frá þeim félögum. 

„Okkur grunaði að það væri ekki allt með felldu og við þyrftum að komast sem hraðast niður, sérstaklega þar sem veður var þannig að enga þyrlubjörgun yrði fá þann daginn og líklega ekki næstu daga.“

„Þegar við hófum göngu okkar frá búðum 2 var ljóst að Siggi var mjög slæmur í lungunum og þurftum við að grípa til súrefnis. Þetta var erfiður dagur í gegnum Khumbu Icefall en eins og fyrri daginn tók Siggi þennan dag á hnefanum og komumst við allir heilir niður í grunnbúðir 26. maí.“