Lúsífer er myrkrahöfðinginn en líka ljósberi og fiskur

Mynd: The Satanic Temple / The Satanic Temple

Lúsífer er myrkrahöfðinginn en líka ljósberi og fiskur

27.05.2021 - 11:05

Höfundar

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi á dögunum úr gildi úrskurð mannanafnanefndar sem féllst ekki á að karlmanni yrði leyft að taka upp nafnið Lúsifer. Af þessu tilefni rifjum við upp þátt Orðs af orði frá því í fyrrasumar um nafnið Lúsífer og Hel og úrskurði mannanafnanefndar.

Þann 14. janúar 2020 kvað mannanafnanefnd upp úrskurð í máli númer 121 frá 2019 og hafnaði þar með beiðni um að leyfa karlmannsnafnið Lúsífer, með vísun í ákvæði mannanafnalaga um að nafn skuli ekki valda nafnbera ama. Í úrskurði nefndarinnar segir: „Þar sem nafnið Lúsífer er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama.“

Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um afnám mannanafnanefndar en eins og lögin eru í dag þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt til að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn. Skilyrðin eru eftirfarandi:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mannanafnanefnd tekur afstöðu til nafnsins Lúsífer, eða einhverrar útgáfu af því. Sjötta nóvember 2019, rúmum tveimur mánuðum áður, hafnaði nefndin nafninu Lucifer, stafsett að erlendri venju. Þá var vísað til sama ákvæðis um ama, en einnig var nafninu hafnað á grundvelli ritháttar. Í úrskurðinum segir:

„Þar sem nafnið Lucifer er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama. Auk þess getur ritháttur nafnsins Lucifer ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn c telst ekki til íslenska stafrófsins.“

Þá er reyndar ekki öll sagan sögð því árið 1997 hafnaði mannanafnanefnd nafninu Lusifer. Miðvikudaginn 8. október það ár var fjallað um nöfn sem nefndin hafnaði í Degi. Þar sagði meðal annars að nöfnin, Kaleb, Knörr, Rúben, Sandri, Rósinkara, Maídís og Mey hefðu verið samþykkt en nöfnin Ben, Kosmo, Lusifer, Werner, Rosmarie, Stefanie, og Ýrí hefðu verið meðal þeirra sem var hafnað.

Í frétt Dags sagði einnig að prestum væri skylt að bera nöfn, sem ekki væru á mannanafnaskrá, undir mannanafnanefnd en eitthvað hefði borið á því að þeir hefðu ekki sinnt þessari skyldu sinni. Haft er þó eftir Halldóri Ármanni Sigurðssyni, þáverandi formanni mannanafnanefndar, og Baldri Kristjánssyni, þáverandi biskupsritara, að þessi vandi fari minnkandi. Haft var eftir Skúla Guðmundssyni þáverandi skrifstofustjóra hjá Hagstofunni að það væri óþægilegt fyrir alla aðila ef barn væri skírt nafni sem ekki fengist samþykkt. Mun betra væri ef gengið væri úr skugga um slíkt áður en barn væri skírt. 

Að nefna og skíra

Benda má á, ef til vill með dálitlum orðhengilshætti, að börn eru ekki skírð nöfnum, heldur eru þeim gefin nöfn. Á Íslandi eru nöfn oftast gefin um leið og börn eru skírð til kristinnar trúar, þó að þetta fari að sjálfsögðu eftir því hvort, og í hvaða trúfélagi foreldrar eru. En vegna þess að í aldanna rás hefur þetta haldist í hendur á Íslandi, skírn og nafngjöf, hefur sögnin skíra fengið merkinguna gefa nafn eða nefna. Þá er hún ekki bara notuð um mannanöfn heldur nöfn af ýmsu tagi og heyra má dæmi á borð við: Húsið var skírt Sigríðarstaðir eða: Hvað á ég að skíra möppuna í tölvunni? Hér er merkingin að sjálfsögðu ekki að hús eða mappa sé tekin í samfélag kristinna heldur að henni sé gefið nafn. 

Brot á stjórnarskrá að mismuna eftir trúarbrögðum

Mannanafnanefnd hefur sem sagt að minnsta kosti þrisvar hafnað nafninu Lúsífer. Í nýjasta tilvikinu, í byrjun árs 2020, var ekki verið að sækja um að nefna ungbarn Lúsífer, heldur sótti fullorðinn maður um að fá að heita Lúsífer að seinna eiginnafni. Ingólfur Örn Friðriksson sótti um að fá að skipta út Arnar-nafninu og heita í staðinn Ingólfur Lúsífer Friðriksson. Rætt var við hann á mbl.is um þetta í apríl 2020: „Við eig­um öll að standa jöfn gagn­vart lög­um, óháð trú­ar­brögðum. Að hafna nafn­inu Lús­ífer á for­send­um þess að það sé nafn djöf­uls­ins í einni trú, kristni, finnst mér mis­mun­un. Og mis­mun­un á grund­velli trú­ar­bragða er stjórn­ar­skrár­brot.“

Ingólfur sagði einnig að hann hefði fengið hugmyndina þegar hann sá að Lucifer, með enskri stafsetningu, hafi verið hafnað. Hann sagðist hafa verið skráður í trúfélagið Church of Satan, Kirkju Satans, frá árinu 2001 og hafa íhugað nafnabreytingu út frá þeirri hefð safnaðarbarna að taka upp nöfn sem tengist satanisma. Hann sagðist skilja að nafninu hefði verið hafnað með enskri stafsetningu. Nefndin yrði að fara að lögum og rithátturinn Lucifer falli ekki að íslensku eins og mannanafnalög geri ráð fyrir en honum hafi dottið í hug að með rökstuðningi fengi hann nafnið samþykkt með íslenskri stafsetningu. 

Rök Ingólfs í beiðni um nafnbreytingu voru meðal annars þau að Lúsífer væri lykilnafn í trúarbrögðum hans. Því var sem fyrr segir hafnað á grundvelli ákvæðis um að nafn megi ekki valda nafnbera ama. Þau rök haldi ekki vatni að hans mati. Hann sagði að önnur nöfn í svipuðu hlutverki væru leyfð og notuð og nefndi nafn Loka úr norrænni goðafræði, sem hann sagði að mörgu leyti hliðstætt nafninu Lúsífer, og nafnið Ári, sem þýði púki eða illur andi. Lúsífer sé í það minnsta fallinn engill. 

Í fréttinni er einnig rætt við Aðalstein Hákonarson, formann mannanafnanefndar. Haft er eftir honum að litlu sé að bæta við úrskurðinn, lagaákvæðið sem hann byggist á sé skýrt. Hann sagði að á því bæri að horft væri fram hjá því í umræðu um ákvæðið að nafn sem hafi einu sinni verið fært á mannanafnaskrá sé þaðan í frá öllum heimilt. Þess vegna geti nefndin ekki einskorðað mat sitt við aðstæður þess sem sæki um heldur verði líka að taka tillit til þess að sé nafnið fært á skrána geti foreldrar gefið barni það. 

Þegar fréttin er skrifuð, 10. apríl 2020, hafði Ingólfur Örn sent umboðsmanni Alþingis erindi um málið og beið svars. Við vitum ekki til þess að það hafi borist þegar þessi þáttur er tekinn upp, í júní 2020, það fannst í það minnsta ekki í leit á vef umboðsmannsins. Ingólfur sagðist í viðtalinu ekki hafa miklar áhyggjur af neikvæðum viðbrögðum við nafninu og bjóst við litlum viðbrögðum ef einhverjum. Fólk væri yfirleitt fljótt að samþykkja nöfn sem því þætti óvenjuleg. Möguleg neikvæð áhrif væru fordómar sem væru trúarlegs eðlis en þeir væru ekki líklegir til að hafa áhrif á framgang Ingólfs í lífinu. Hann sagðist eiga erfitt með að trúa að fólk væri svo þröngsýnt. 

Beinfiskur af lúsíferaætt

En lítum þá á það hvaðan þetta blessaða nafn, Lúsífer, kemur. Það kemur í íslensku úr latínu og er reyndar ekki bara haft um myrkrahöfðingjann heldur einnig beinfisk af lúsíferaætt sem finnst í öllum heimshöfum, meðal annars við Ísland. Lúsífer er djúpfiskur sem verður allt að 60 sentimetrar að lengd. Þá er orðið einnig haft um Venus, morgunstjörnuna. Í latínu er orðið myndað af lucis, eignarfalli orðsins lux, sem þýðir ljós, og ferre, sem þýðir að bera. Lúsífer þýðir því bókstaflega ljósberi. 

Að nafnið sé haft um Satan, sem hans raunverulega eða upphaflega nafn, á rætur að rekja til latneskra Biblíuþýðinga. Orðið var notað til að þýða gríska orðið phosphoros, sem er svo aftur þýðing úr hebresku á orðunum Helel ben Shahar í 14. kafla Jesajabókar í Biblíunni. Phosphoros hljómar ef til vill kunnuglega, enda gat það orð einnig af sér orðið fosfór, sem er í íslensku ýmist haft í karlkyni eða hvorugkyni, sem við höfum um frumefnið sem er með táknið P, sætistöluna 15 og er eitrað, fast og mjög eldfimt. Það er skiljanlegt að efninu hafi verið gefið nafn sem vísar til ljóss og þýðir ljósberi, enda fylgir eldi ljós. Orðið kom í íslensku úr dönsku en er grískt að uppruna. 

Lúsífer sem nafn Satans kemur sem áður sagði úr Jesajabók. Versið þar sem orðið kemur fyrir fjallar reyndar ekki um Satan heldur konunginn í Babýlon og fall hennar. Í enskri orðsifjabók segir að Satansnafnið sé trúarleg túlkun, sprottin af því að orðið Lucifer kemur fyrir í latneskri biblíuþýðingu þegar talað er um fall af himnum, þó að orðið sé þá í bókstaflegum skilningi haft um konunginn í Babýlon. Þessa túlkun má sjá í enskri þýðingu í Biblíu Jakobs konungs sem kom út árið 1611, sem nefnist á ensku King James bible. Þar segir á ensku: „How art thou fallen from heaven, O Lucifer, son of the morning!“ Sem við getum þýtt nokkurn veginn sem: „Hversu ertu hrapaður af himnum, ó Lúsífer, sonur morgunsins.“

Það að þetta vísi ekki til Satans heldur konungsins í Babýlon má sjá í íslensku þýðingunni. Í þriðja til fjórða versi 14. kafla Jesajabókar segir: „Þegar Drottinn veitir þér hvíld af þrautum þínum og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð, 4þá muntu kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon.“ Síðan hefst kvæðið og í 12. versi kaflans segir: „Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna!“ Af þessu versi er dregið á ensku að nefna myrkrahöfðingjann Morgunstjörnu eða Dagstjörnu, auk auðvitað Lúsífer-nafnsins. 

Nafninu Hel hafnað

Einnig má geta þess að 6. janúar 2017 hafnaði mannanafnanefnd eiginnafninu Hel. Í úrskurðinum segir að Hel taki íslenskri eignarfallsendingu og brjóti ekki í bág við íslenskt málkerfi. Það sé einnig ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Hel uppfylli á hinn bóginn ekki það viðmið mannanafnalaga að nafn skuli ekki vera nafnbera til ama. Á grundvelli amaákvæðis verði því að hafna nafninu.

Í fyrsta lagi beri að líta til þess að Hel sé heiti á gyðju ríkis dauðra í norrænni goðafræði en einnig heiti á sjálfu dauðaríkinu. Það merki í sumum orðasamböndum dauða eða bana, til dæmis bíða hel sem merkir að deyja, svelta í hel sem þýðir að verða hungurmorða, vera á heljar þröm og heimta úr helju. Hel sé einnig fyrri hluti orðsins helvíti og blótsyrðisins helvítis, sem hafi neikvæða merkingu.

Í öðru lagi, segir í úrskurðinum, sé óhjákvæmilegt að líta til lögskýringargagna sem varpa ljósi á amaákvæði mannanafnalaga. Þar sem amaákvæði frumvarpsins hafi verið samþykkt óbreytt sé nærtækt að álykta að það sé vilji löggjafans að banna að gefa fólki nafnið Hel. Það sé ekki í verkahring mannanafnanefndar að endurskoða það mat löggjafans.

Í þriðja lagi, en enn um amaákvæðið, sé ástæða til að leggja áherslu á að það sé matskennt og því verði að beita varfærnislega. Fólkið sem sótti um að fá nafnið samþykkt svo það gæti gefið það dóttur sinni, er (eða að minnsta kosti var) í Ásatrúarfélaginu. Það lá því fyrir að það hafði hagsmuni af því að gefa dóttur sinni nafnið. Gildandi lög um mannanöfn feli hins vegar í sér heimildir mannanafnanefndar til að hafna nöfnum á grundvelli þess að nafngift verði nafnbera til ama og að þessum heimildum verði eingöngu beitt í undantekningartilvikum. Að þessum skilyrðum uppfylltum megi takmarka frelsi til nafngifta með tilliti til hagsmuna nafnbera. 

Í fjórða og síðasta lagi er þess getið að í eldri úrskurðum hafi mannanafnanefnd hafnað nöfnum á grundvelli amaákvæðisins, svo sem þegar nafninu Sataníu var hafnað. Það nafn sé líkt nafninu Hel. Það horfi því til samræmis að hafna því að nafnið Hel komist á mannanafnaskrá.

Hel, í norrænni goðafræði, er dóttir Loka og Angurboðu og ríkir yfir undirheimum. Óðinn kastaði Hel niður í Niflheim þar sem hún skyldi ríkja yfir níu undirheimum þangað sem þeir fóru sem ekki dóu í bardaga. Hel er svo einnig nafn á þessum undirheimum.

Samnafnið hel er, auk þess sem nefnt var í rökstuðningi með úrskurði mannanafnanefndar þegar kvennafninu Hel var hafnað, notað til áherslu í myndun lýsingarorða, svo sem helaum, helblá og heldimm; og einnig nafnorða eins og helfrost og helkuldi; og sagnorða eins og helfrjósa. Þá er eignarfallsmynd orðsins einnig í samsetningum eins og heljargreipar, heljarþröm og heljarbál.

Hel er sagt komið af hinu frumgermanska *haljō-, en uppruni þess hefur verið rakinn allt aftur til frumindóevrópsku. Orðið hell í nútímaensku, yfir helvíti, er komið af fornenska orðinu hel sem er af sama meiði og nafnið Hel, og reyndar mörg önnur sambærileg orð, til dæmis í gotnesku, fornháþýsku, fornfrísnesku og fornsaxnesku.  

Þannig er nú það. Þú mátt ekki heita Lúsífer, Satanía eða Hel því það gæti orðið þér til ama, að mati mannanafnanefndar. En nefndin skiptir nú stundum um skoðun eins og fjölmörg dæmi sýna. 

Áður til ama en ekki lengur

Lengi mátti ekki gefa stúlku nafnið Villimey. Það þótti nú reyndar aldrei beint djöfullegt en í það minnsta heldur villimannslegt og var hafnað á þeim forsendum. Mannanafnanefnd taldi nafnið hafa neikvæða merkingu, forliðurinn Villi- væri niðrandi. Það var svo tuttugu og tveimur árum eftir að foreldrar Villimeyjar Lífar Friðriksdóttur sóttu fyrst um leyfi fyrir nafninu sem hún fékk að breyta skráningu sinni í Þjóðskrá. Foreldrar Villimeyjar höfðu í þrígang reynt að fá ákvörðun nefndarinnar hnekkt en án árangurs.

Í úrskurði frá 2012 segir einfaldlega að eiginnafnið Villimey taki íslenskri beygingu í eignarfalli og teljist að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Villimey er því ekki lengur talið geta verið nafnbera til ama.

Það er því aldrei að vita hvað verður. Kannski verða nöfnin Lúsífer, Hel og Satanía samþykkt enn daginn. Það er að segja ef mannanafnanefnd heldur áfram að starfa í óbreyttri mynd.

Eins og áður sagði er komið fram frumvarp um að breyta nafnalögum og leggja niður mannanafnanefnd. Ef það verður samþykkt á Alþingi sem lög breytist ýmislegt varðandi það að gefa fólki nöfn en þó ekki allt. Áfram verður í lögum ákvæði um að nafn megi ekki valda nafnbera ama og þá má það ekki vera fyrirtækjaheiti. 

Sitt sýnist hverjum um ágæti frumvarpsins, sem og mannanafnalaga eins og þau eru í dag, en í greinargerð með því segir að verið sé að koma til móts við gagnrýni á gildandi lög um að í þeim séu of strangar reglur og matskennd viðmið. Ekki verður þó annað séð en að með því að halda inni amaákvæði sé enn þá töluvert mat hægt að leggja á ágæti nýrra nafna. Í drögum að frumvarpinu segir að það að hafa áfram inni slíkt ákvæði byggist meðal annars á umsögnum frá Barnaverndarstofu og umboðsmanni barna um frumvörp þar sem lagt var til að ákvæðið félli brott. Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Var bent á að nauðsynlegt væri að hafa eftirlit með nafngiftum barna. Um mikilvæga hagsmuni barns væri að ræða og vanlíðan vegna nafns gæti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þess. Sambærileg ákvæði eru í löggjöf allra hinna Norðurlandanna um mannanöfn. Í umsögnunum er einnig vísað til þeirrar skyldu löggjafans að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.“

Jafnréttismál að leyfa fleiri stafi í nöfnum

Í nýjum lögum, verði þau samþykkt, verður heimilt að rita nafn með bókstöfum sem ekki tilheyra íslenska stafrófinu, c, q w og z. Í því samhengi má nefna dómsmál frá árinu 2019 sem íslenska ríkið tapaði. Það snerist um nafnið Zoe, sem mannanafnanefnd hafði hafnað en varð svo að samþykkja. Hér má auðvitað geta þess að til eru íslensk ættarnöfn sem hefð er fyrir, eins og Claessen og Zoega, sem innihalda stafi af þessu tagi. 

Þeim Íslendingum fjölgar sem bera nöfn með stöfum eins og þessum, eftir því sem uppruni okkar verður fjölbreyttari með flutningum fólks til landsins. Með því, og ekki síst ef nýja nafnafrumvarpið verður óbreytt að lögum, vaknar spurningin hvort ekki sé rétt að taka þessa stafi opinberlega inn í íslenska stafrófið. Til eru dæmi um að þegar keypt eru stafasett inn á leikskóla, svo börnin geti haft upphafsstafi sína á áberandi stað, hafi starfsfólk þurft að föndra stafi eins og w og z til að börn af erlendum uppruna geti líka haft upphafsstafi sína. Út frá því mætti færa rök fyrir því að það að taka þessa stafi inn í stafrófið væri jafnréttismál. 

Fleira sem felst í nýju lögunum er meðal annars það að í stað mannanafnanefndar myndi Þjóðskrá Íslands skera úr um lögmæti nafns, léki á því vafi. Hægt væri að leita álits nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum áður en nafn væri skráð, teldi Þjóðskrá tilefni til þess. 

Í drögum að frumvarpinu er líka heimild til þess að taka upp ættarnafn, sem eitt sinn var leyfilegt á Íslandi en hefur ekki verið um langa hríð. Það verður þó ekki endilega einfalt ef frumvarpið verður samþykkt. Hyggist fólk til dæmis taka upp ættarnafn sem þegar er til þarf að tilgreina ættartengsl eða vensl til að fá að taka nafnið upp. Ef ekki er hægt að sýna fram á tengsl þarf að auglýsa að taka eigi ættarnafnið upp og þá hafa þeir sem bera það fyrir þrjá mánuði til að andmæla. Dómstólar skera síðan úr um réttinn til að taka nafnið upp ef til þess kemur. Ákvæðið mun ekki eiga við um ættarnöfn sem erlendir ríkisborgarar hafa komið með til landsins.

Guðrún Línberg Guðjónsdóttir og Kristján Sigurðarson höfðu umsjón með þættinum, sem var á dagskrá Rásar 1 28. júní 2020. Tæknimaður var Lydía Grétarsdóttir.

Tengdar fréttir

Innlent

Héraðsdómur fellir úr gildi úrskurð um nafnið Lúsifer

Tækni lúsifers gæti valdið byltingu í fiskeldi