Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland sagt eiga heimsmet í bótaskerðingum

27.05.2021 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Íslendingar eiga heimsmet í skerðingum í almannatryggingakerfinu að mati skýrsluhöfunda á vegum stéttarfélagsins Eflingar.

Skýrslan var kynnt í gær á málþingi Öryrkjabandalagsins. Hún var unnin af Stefáni Ólafssyni, sérfræðingi Eflingar og Stefáni Andra Stefánssyni. Þar segir að skerðingar í almannatryggingakerfinu á Íslandi séu óhóflegar og fari nærri því að vera heimsmet. Miklar skerðingar komi meðal annars fram í að útgjöld hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna eru óvenju lág eða þau fimmtu lægstu meðal OECD-ríkjanna. Önnur afleiðing er að á bilinu 25 til 50% íslenskra lífeyrisþega glíma við lágtekjuvanda, eftir því hvar lágtekjumörkin eru dregin. Þá segir að með óvenju harkalegum skerðingum skeri Íslendingar sig talsvert frá hinum Norðurlandaþjóðunum og líkist íslenska velferðarkerfið fremur engilsaxneskum velferðarkerfum en þeim norrænu hvað þetta snertir.

Í skýrslunni eru lögð fram gögn um virkni almannatrygginga og lífeyrissjóða og sýnt fram á hvernig kjörum kerfið skilar lífeyrisþegum sem og þeim sem fara á lífeyri á næstu árum. Lagt er til að frítekjumark lífeyrissjóðstekna verði hækkað í minnst 100.000 kr. á mánuði auk þess sem hámarks lífeyrir frá Tryggingastofnun fyrir einstaklinga hækki úr rúmum 333 þúsund krónum í 375.000 kr. á mánuði og samsvarandi fyrir sambúðarfólk. Þá er einnig lagt til að lífeyriskjör öryrkja og ellilífeyrisþega verði samræmd, sem og að frítekjumark vegna atvinnutekna verði aldrei lægra en sem nemur lágmarkslaunum á vinnumarkaði.