Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Gróðureldaváin er komin til að vera“

27.05.2021 - 08:37
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Slökkvilið landsins hafa þurft að bregðast við hátt í 70 gróðureldum á undanförnum sjö vikum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett á laggirnar starfshóp um varnir gegn gróðureldum til að bregðast við vaxandi ógn hér á landi. „Ég myndi segja að gróðureldaváin er komin til að vera, aðallega fyrir tilstilli hnattrænnar hlýnunar sem og aukinnar gróðursældar hér á landi,“ segir Regína Valdimarsdóttir, formaður starfshópsins.

Regína er fulltrúi Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar sem á einn annan fulltrúa í starfshópnum. Aðrir eiga einn fulltrúa; almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Félag slökkviliðsstjóra, Lögreglustjórafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógræktin, Veðurstofa Íslands og Verkís. 

Starfshópurinn fær það verkefni að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum í formi forvarna og fræðslu um gróðurelda. „Við munum funda reglulega og leggja markvissan kraft í að bæði kortleggja nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum sem snerta gróðurelda og reyna að stuðla að breytingum þar á ef þess gerist þörf. Markmiðið er líka að stuðla að vitundarvakningu og fræðslu um gróðurelda í samfélaginu og þetta er náttúrlega ný vá hér á landi þannig að það er mikilvægt að stuðla að því. Síðast en ekki síst viljum við líka auka viðbúnað slökkviliða, skógarbænda og almennings,“ segir Regína. 

Slökkvilið um allt land hafa sinnt 67 útköllum vegna gróðurelda frá 9. apríl.  Regína segir ljóst að hætta á gróðureldum sé komin til að vera hér á landi.  

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er áfram hætta á gróðureldum allvíða á landinu sökum þurrka, en í lok vikunnar er útlit fyrir sunnanátt með rigningu sunnan- og vestanlands.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV