Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gætu verið 20-90 dagar í að hraun flæði úr Nátthaga

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að reiknað sé með að það taki um 20-90 daga fyrir hraunið úr Fagradalsfjalli að ná út fyrir Nátthagann. Gagnaveitan er í kappi við tímann að plægja fyrir ljósleiðara við Suðurstrandarveg áður en það gerist - og á nægu dýpi til að hann sé í vari fyrir hrauni.

Margir kílómetrar af ljósleiðararörum standa nú við Suðurstrandarveg í stórum keflum. Til stendur að leggja þar ljósleiðara í jörðu með hraði, ef ske kynni að hraunið næði þangað á næstu vikum. „Nató-strengurinn liggur hérna ofar. En hann er náttúrulega líka í hættu, það er gríðarlega mikilvægt að vera með sambandið sterkt hérna. Tenging okkar við útlönd liggur frá suðurströndinni. Þetta er bara liður í því að efla þær tengingar,“ segir Elísabet Guðbjörnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Gagnaveitu Reykjavíkur.

Þetta er lokahnykkurinn til að ná tengingu milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Til öryggis er strengurinn í rörum sem eiga að þola 190 gráðu hita. „Við erum að plægja niður á þannig dýpi að við séum í vari frá hrauni, við erum bara í kappi við tímann að reyna að koma þessu niður.“

Á að verja suðurstrandarveg?

Þetta segir Elísabet vegna þess að hraun tók að flæða niður Nátthagann um helgina. Spár gera ráð fyrir því að hraunið renni til sjávar en enginn veit fyrir víst hvenær það gerist. Sú spurning brennur á fleirum. „Það er talað um allt frá 20 dögum upp í 90 daga sem við höfum áður en þetta er komið of langt til þess að það sé hægt að fara að gera eitthvað.“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.

Tungan hefur ekki skriðið langt fram í Nátthaga síðan á mánudaginn - en hún hefur þykknað töluvert. Enn eru um tveir kílómetrar frá tungunni að Suðurstrandarvegi. Verið er að meta hvort gripið verður til varna eins og var reynt ofan við Nátthaga. „Og með hvaða hætti eða hvort það verður farið í aðrar aðgerðir eins og að dýpka landslagið annars staðar, og það er líka verið að skoða hvaða áhrif það hefur að gera ekki neitt.“

Rögnvaldur segir að verið sé að meta hvað kostar að gera varnir og hvað kostar að gera ekki neitt, því þá gæti Suðurstrandarvegurinn farið undir hraun og orðið ófær um tíma, en hann er flóttaleið fyrir Grindvíkinga. „Svo er þetta samgöngumannvirki sem er mikið notað, til dæmis fyrir fiskflutning og annað þess háttar. Þetta er allt hlutir sem þarf að taka inn í reikninginn.“