Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dregur úr hættu á gróðureldum með vætu um helgina

27.05.2021 - 06:49
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Búast má við að jarðvegur blotni, gróður taki við sér og það dragi úr hættu á gróðureldum um helgina þegar hæðin sem stjórnað hefur veðrinu undanfarnar vikur gefur eftir með þeim afleiðingum að úrkomuskil ná inn á land.

Þá má búast við vætu sunnan- og vestan til á laugardaginn og úrkomumeira á sunnudag, en hættustig vegna hættu á gróðureldum hefur verið í gildi á nær öllu sunnan- og vestanverðu landinu síðustu vikur. 

En í dag stjórnar hæðin norðaustur af landinu enn þá veðrinu með léttskýjuðu veðri víða, en nokkur vindstrengur er með suðurströndinni. Búast má við 13-20 metrum á sekúndu í kvöld og á morgun. Áfram er hlýtt og líklegt að hámarkshiti dagsins verði í kringum 18 stig, með lítils háttar rigningu sunnanlands.