Braut lög þegar Elín fékk ekki að heita Kona

Elín Eddudóttir
 Mynd: Bragi Valgeirsson

Braut lög þegar Elín fékk ekki að heita Kona

27.05.2021 - 19:06

Höfundar

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að mannanafnanefnd hafi ekki farið að lögum þegar Elín Eddudóttir fékk ekki að taka upp millinafnið Kona. Umboðsmaður beinir því til nefndarinnar að hún taki málið upp að nýju komi beiðni þess efnis frá Elínu og taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem reifuð eru í áliti hans.

Elín ræddi málið við fréttastofu fyrir tveimur árum og samkvæmt símaskrá hefur hún tekið upp nafnið Kona sem millinafn.

Hún fékk fyrst hugmyndina þegar hún las viðtal við konu á Vísi sem hafði í tvígang sótt um að fá að bera nafnið Kona en verið hafnað. Elín sótti um leyfi til að taka nafnið upp sem millinafn en beiðni hennar  var synjað. 

Elín kvartaði til umboðsmanns sem nú hefur komist að þeirri niðurstöðu að mannanafnanefnd hafi ekki farið að lögum þegar beiðni hennar var synjað.  Elín segir í samtali við fréttastofu að hún hafi fengið álit umboðsmanns í hendurnar í gærkvöld og hafi sótt um að nýju í dag.

Mannanafnanefnd sagði í skýringum sínum til umboðsmanns að það væri álit hennar að það stangaðist á við íslenskt málkerfi að nöfn væru dregin af samnöfnum sem væru hin almennu og tiltölulega hlutlausu orð. Þetta væru orð eins og kona, karlmaður, stúlka, piltur, stelpa og strákur. Þessi orð bæru auk þess með sér að einstaklingur væri á ákveðnum aldri.

Nefndin viðurkenndi að orðalag í úrskurði hennar hefði ekki verið jafnskýrt og æskilegt hefði verið. Sama ætti við um tölvupóst frá formanni nefndarinnar til Elínar.

Umboðsmaður telur að mannanafnanefnd hafi farið út fyrir það svigrúm til mats sem hún hafi samkvæmt lögum og ekki sýnt fram á að hún hafi lagt viðhlítandi grundvöll að ákvörðun sinni í málinu. Þá hafi nefndin ekki tekið nægt tillit til hagsmuna borgarans af því að fá að ráða nafni sínu og auðkenni sjálfur.

Tengdar fréttir

Innlent

„Skrýtið að fá að heita Karl en ekki Kona“

Innlent

Fær ekki að bera nafnið Kona