Vissi ekki að hún yrði fyrsti kjörni kvenforsetinn

Mynd: RÚV / RÚV

Vissi ekki að hún yrði fyrsti kjörni kvenforsetinn

26.05.2021 - 11:10

Höfundar

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, segist ekki hafa vitað hún yrði fyrsti lýðræðislega kjörni kvenforseti í heimi fyrr en eftir að hún var kosin. Þegar það kom í ljós hafi henni auðvitað fundist það stórmerkilegt. Fríða María ræddi við Vigdísi í Krakkakastinu.

Vigdís segir að hún hafi verið mjög hreykin af því að Íslendingar hefðu verið fyrstir til að kjósa sér konu sem forseta, fannst það raunar sjálfsagt, það sýndi að landsmenn hefðu verið komnir langt í jafnréttismálum. Hún hafi svo auðvitað reynt eftir bestu getu að standa sig í því hlutverki. 

Þegar hún var yngri segist Vigdís ekki hafa verið mikið í því að prakkarast en hún hafi alltaf þótt afskaplega áreiðanleg og var fengin í að fara í sendiferðir og að sjá um ýmsa hluti. Það hafi þá heldur aldrei verið planið að verða forseti, heldur langaði hana að verða skipstjóri. Þegar hún sagði fólki það fékk hún hins vegar þau svör að það gæti hún ekki af því að hún væri stelpa. 

„Síðan fer ég alltaf að hlæja þegar ég er að fara í flugvél og sit í flugvél og það kemur í hátalaranum: Góðan daginn, þetta er Sigríður Sigurðardóttir flugstjóri hér. Þá hugsa ég: Sko! Nú er þetta allt saman komið stelpur,” segir Vigdís. 

Um tíma bjó Vigdís í Frakklandi þar sem hún stundaði háskólanám og svo ferðaðist hún einnig mikið sem forseti. Hún segist ekki geta nefnt neitt uppáhalds land en hún hafi sjö sinnum komið til Japan. Það sem sé skemmtilegast við að vera í útlöndum sé að fá að kynnast ólíkum menningarsvæðum í heiminum. „Hvernig fólk lifir á annan hátt og hugsar á annan hátt. Útlönd voru og eru ævintýri,” bætir hún við.

Fríða María ræddi líka við Vigdísi um forsetaferilinn, hvað hafi verið eftirminnilegast og skemmtilegast. Þáttinn í heild sinni má hlusta á í spilara KrakkaRÚV.