Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óvissustig á Norðausturlandi vegna hættu á gróðureldum

26.05.2021 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna hættu á gróðureldum á Norðurlandi eystra, í samráði við lögreglu- og slökkviliðsstjóra í fjórðungnum.

Í tilkynningu frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra segir að þessi ákvörðun sé tekin þar sem lítið hafi rignt á svæðinu undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir enga úrkomu að ráði.

Minnt er á að í dag var Slökkvilið Akureyrar kallað út vegna sinubruna við Lundeyri þar í bæ og einnig hafi orðið sinubruni í Ólafsfirði í gær.

Almenningur á Norðurlandi eystra er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld, ekki síst þar sem gróður er þurr. Það þurfi ekki nema lítinn neista til að af geti orðið mikið bál. Þeir sem verði varir við gróðurelda skuli hringja í 112.