Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ljós skín enn undan hrauninu

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný - RÚV
Ljósleiðari sem lagður var í tilraunaskyni við varnargarðana í Nafnlausa dalnum virkar enn þótt hann sé kominn undir hraun. Það gefur góð fyrirheit um að ljósleiðarinn í Nátthaga sé ekki ónýtur þó að hraunið nái þangað.

Þegar varnargarðarnir voru gerðir, fyrr í þessum mánuði, var ákveðið að gera tilraun með að leggja ljósleiðara framan við hraunið til að sjá hvort að hann myndi slitna eða skemmast þegar hraunið rynni yfir hann. Ljósleiðarinn var grafinn á þriðjudag í seinustu viku og á föstudag fór hraunið yfir hann. Daði Sigurðarson er sviðstjóri hjá Mílu.

„Hann er bara undir hrauni og er búinn að liggja undir hrauni í að verða sjö sólarhringa. Virkni hans er bara eðlileg, hann virkar sem skyldi. Það lítum við á sem mjög jákvætt. Þá erum við að minnsta kosti komin með þá reynslu að ljósleiðari sem liggur á þessu dýpi, 70 cm eða meira, hann virkar þá eftir viku.“

Vitið þið hvað það er mikið hraun ofan á ljósleiðaranum?

Ég tel það vera bara eins og hæð varnargarðanna en skilst að það sé enn um fjórir metrar við eystri varnargarðana svo það er fjögurra metra farg ofan á.“ segir Daði.

Hraunið rennur stöðugt í Nátthaga og ef gosið heldur áfram er líklegt að það nái að Suðurstrandarvegi á næstu vikum eða mánuðum. Við Suðurstrandarveg er ljósleiðari í notkun en nái hraunið þangað er ekki þar með sagt að hann skemmist.

„Þetta gefur okkur alla vega vísbendingu um að hann þoli talsvert. Við erum nýbúin að vera að sóna hann og kanna dýpið á honum þar sem hann liggur syðst í Nátthaganum og hann er alls staðar á réttu dýpi, rúmlega 70 cm eða upp í einn metra og það gefur okkur von um að hann þoli þetta álag þegar hraunið rennur yfir,“ segir Daði