Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fasteignamarkaður á fullu vélarafli

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Spáð er áframhaldandi hækkunum á fasteignaverði og hraðri fjölgun ferðamanna í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í morgun.

Sérfræðingar bankans líta svo á að botni kórónukreppunnar sé þegar náð og spá 2,7 prósenta hagvexti í ár eftir 6,6 prósenta samdrátt í fyrra. Þetta er heldur hægari bati en í janúarspá bankans en á næsta ári verður hagkerfið komið á fullt skrið og þá gert ráð fyrir 4,9 prósenta hagvexti.

Þar munar mestu um fjölgun ferðamanna. Áætlað er að þeir verði 700 þúsund í ár, 1,3 milljónir á næsta ári og ein og hálf milljón árið 2023. Það er því enn nokkuð langt í að fjöldi ferðamanna nái tveimur milljónum líkt og fyrir faraldurinn.

Samhliða fjölgun ferðamanna er því spáð að krónan styrkist sem um leið dregur úr verðbólgu sem er nú 4,6 prósent og hefur ekki mælst hærri í átta ár. Telur Íslandsbanki að toppnum sé náð og að verðbólga á næsta ári verði 2,6 prósent.

Atvinnuleysi var 11,3 prósent í upphafi árs og er því spáð að það hjaðni hratt, það verði 5,3 prósent að jafnaði á næsta ári og 3,6 prósent árið 2023.

Þá er ekkert lát á hækkunum á fasteignamarkaði. Það sem af er ári hefur verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 7,8 prósent og verð á fjölbýli 4,3 prósent. Lágir vextir og skortur á nýju húsnæði heldur áfram að þrýsta verðinu upp á við og er því spáð að hækkunin í ár verði 11,3 prósent og 6,7 prósent á næsta ári.

Þjóðhagsspá Íslandsbanka