Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Boðar enduropnun ræðismannsskrifstofu í Palestínu

26.05.2021 - 05:25
epa09227355 U.S. Secretary of State Antony Blinken speaks during a news conference in Jerusalem, 25 May 2021.  EPA-EFE/RONEN ZVULUN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Bandarísk stjórnvöld hyggjast taka upp bein stjórnmálasamskipti við Palestínumenn að nýju og opna aftur ræðismannsskrifstofu sína í Austur-Jerúsalem í því skyni. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti þetta eftir fund sinn með Mohammad Abbas, forseta Palestínu, í Ramallah á Vesturbakkanum í gær.

 

Ræðismannsskrifstofan var til skamms tíma sjálfstæð eining innan bandarísku utanríkisþjónustunnar. Ríkisstjórn Donalds Trumps, forvera Joes Bidens í Hvíta húsinu, gerði hana hins vegar að deild innan Bandaríska sendiráðsins í Ísrael, þegar hann flutti sendiráðið til Jerúsalem.

Vakti reiði Palestínumanna 

Hvort tveggja - flutningur sendiráðsins og gengisfelling ræðismannsskrifstofunnar í Palestínu - vakti mikla reiði Palestínumanna, sem líta á Austur-Jerúsalem sem sína höfuðborg.

Raunar var flutningur sendiráðsins til Jerúsalem gagnrýndur víða um heim, líka af bandalagsþjóðum Bandaríkjanna, þar sem hann þótti og þykir enn til þess fallinn að draga úr líkum á tveggja ríkja lausn og friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Engu að síður hefur Biden lýst því yfir að hann hyggist ekki flytja sendiráðið í Ísrael aftur til Tel Aviv, þar sem flest sendiráð önnur er að finna.

Blinken gaf ekki upp neina tímasetningu á fyrirhugaða enduropnun bandarísku ræðismannsskrifstofunnar í Palestínu en sagði hana verða „mikilvægan vettvang fyrir [Bandaríkin] til að eiga í samskiptum við palestínsku þjóðina og sýna henni stuðning í verki."
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir