Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Akureyrarkirkja krefur ósakhæfan mann um skaðabætur

26.05.2021 - 20:42
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Akureyrarkirkja hefur höfðað dómsmál á hendur manni sem vann skemmdarverk á kirkjunni árið 2017 og fer fram á tæpa 21 milljón í skaðabætur. Saksóknari lét málið niður falla á sínum tíma þar sem skemmdarvargurinn var talinn ósakhæfur.

Þurftu að skipta um klæðingu

Þann fjórða janúar árið tvö þúsund og sautján urðu Akureyringar þess varir að búið var að skrifa hatursfull skilaboð með úðabrúsa á fjórar kirkjur í bænum. Það voru Glerárkirkja, kaþólska kirkjan, Hvítasunnukirkjan og Akureyrarkirkja.  Sú kirkja fékk líklega verstu útreiðina af kirkjunum fjórum en tilraunir til að þrífa spreyið af báru lítinn árangur. Því þurfti að skipta um klæðningu á kirkjunni, verk sem kostaði tæpar tuttugu milljónir króna.

Notaði hjólabretti til að fara á milli

Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsakaði málið og var maður á þrítugsaldri handtekinn nokkrum dögum seinna. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni tengdust skemmdarverkin hugmyndum mannsins um trúarbrögð. Í fyrstu var talið mögulegt að fleiri en einn hefði verið að verki en við rannsókn kom í ljós að maðurinn var einn að verki og notaði hjólabretti til að ferðast á milli kirknanna fjögurra.

Metinn ósakhæfur 

Maðurinn var kærður fyrir eignaspjöll og sleppt að lokinni yfirheyrslu. Saksóknari lét hins vegar málið gegn honum niður falla þar sem hann var talinn ósakhæfur. Nú tæpum fjórum árum síðar hefur Akureyrarkirkja ákveðið að höfða einkamál á hendur manninum og fer fram á tæplega 21 milljón króna í skaðabætur. Kirkjan fékk tæpar tíu milljónir frá Jöfnunarsjóði kirkna og Húsafriðunarsjóði en varakrafa kirkjunnar hljóðar upp á rúmlega 12 milljónir.

Fyrirtaka í næstu viku

Fyrirtaka í málinu verður í Héraðsdómi Norðurlands eystra 1. júní. Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju og lögmaður kirkjunnar í málinu, vildi ekki veita viðtal vegna málsins þegar eftir því var leitað.