Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Á annað hundrað manns þurfa að fara í sóttkví

26.05.2021 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Vel á annað hundrað manns þurfa að fara í sóttkví í tengslum við smit undanfarna daga. Þetta segir Jóhann B. Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna. Smit sem greindust í gær tengjast innbyrgðis og einnig eru tengsl við smit sem greindist í fyrradag.

Eftir fjóra smitlausa daga innanlands greindist eitt smit utan sóttkvíar í fyrradag. Í gær greindust fimm og voru tveir þeirra ekki í sóttkví við greiningu. Tvö smit greindust við landamærin og er beðið mótefnamælingar úr þeim til að skera úr um hvort þau eru virk eða gömul. Jóhann B skúlason, yfirmaður smitrakningrteymis almannavarna, segir að tengsl séu milli þessara smita og smitsins sem greindist í fyrradag. Þau tengist einnig innbyrðis.

„Það eru þarna tengsl á milli einhverra af þessum smitum. Eitt er í rauninni ótengt hinum en svo erum við að skoða hvort við sjáum einhverja samnefnara, sameiginlega snertifleti eða tengingar.“ 

Einhver hluti af þessum smitum sem greinast í gær, tengjast þau smitum frá því í fyrradag?

Já, hluti af þeim tengist því. Í því tilviki fórum við í smá skimun í kring, næsta hópinn í kring, samstarfsmenn og fleiri og þessi smit komu út úr því.“ segir Jóhann.

Starfsmaður leikskólans Árborgar í Árbæjarhverfi í Reykjavík greindist smitaður í gær. 20 starfsmenn og 26 börn í leikskólanum eru í sóttkví fram á föstudag vegna þessa. Á föstudaginn fór starfsmaðurinn í ferð sem elstu börn í þremur leikskólum fóru saman. Því eru sjö starfsmenn og 16 börn í tveimur leikskólum til viðbótar komnir í sóttkví.

Jóhann segir að á annað hundrað manns séu líklega á leið í sóttkví vegna smitanna frá því í gær. Hann segir að eftir því sem slakað er á samfélagslegum takmörkunum fari fleiri í sóttkví við hvert smit. „Já já, fólk er að halda veislur og hittast, það fylgir því, að það er meiri fjöldi,“ segir Jóhann.