Vera Illugadóttir leitar að gáfnaljósum

Mynd með færslu
 Mynd:

Vera Illugadóttir leitar að gáfnaljósum

25.05.2021 - 11:36

Höfundar

Nýir spurningaþættir í umsjón Veru Illugadóttur hefja göngu sína á Rás 1 í sumar. Ætlunin með þáttunum er að finna gáfnaljós Íslands og þú gætir tekið þátt.

„Ég er á fullu núna að semja spurningar, sem er bæði skemmtilegt verk og nokkuð vandasamt,“ segir Vera. Þættirnir heita Gáfnaljósið og hefja göngu sína í júní. Þetta verður alvöru spurningakeppni þar sem þátttakendum verður ekki létt lífið, enda markmiðið að finna gáfnaljós Íslands.

„Spurningarnar verða um allt milli himins og jarðar, svona um það bil,“ segir Vera. „Ef við líkjum þessu við Trivial Pursuit þá verður kannski minna um bleikar spurningar en hina litina í kökunni. Þátturinn á að vera dálítið gáfulegur, vonandi, en auðvitað skemmtilegur líka.“ 

Burðast þú með fánýtan fróðleik sem þú þarft að fá útrás fyrir? Sendu okkur póst á [email protected], með upplýsingum um nafn, kyn, aldur, símanúmer, heimilisfang og starfsvettvang, og þú gætir látið reyna á gáfurnar í þáttunum.