Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þrjú neita sök í Rauðagerðismáli

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Geir Eyjólfsson
Þrír af fjórum sakborningum í Rauðagerðismálinu neita að hafa átt þátt í morðinu á Armando Bequiri. Angelin Sterkaj lýsti því yfir við þingfestinguna að hann hafi framið morðið einn síns liðs.

Ákæran gegn fjórmenningunum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Aðeins einn þeirra, Murat Selivrada, mætti í dómssal en Angelin Sterkaj og Shpetim Qerimi tjáðu sig í gegnum fjarfundarbúnað úr fangelsinu á Hólmsheiði.

Fjórði sakborningurinn, Claudia Carvalho, var fjarstödd en lögmaður hennar lýsti hana saklausa.  Angelin Sterkaj játaði sök við yfirheyrslur og lýsti því aftur yfir í morgun. Hann lýsti því jafnframt yfir að hann hafi staðið einn að morðinu.  

Tæknilegir örðugleikar settu svip sinn á þinghaldið í morgun. Túlkur sakborninganna var í sóttkví og túlkaði í gegnum fjarfundabúnað og illa gekk að ná sambandi við Hólmsheiði.  

Aðalmeðferð í málinu hefst 13. september.