Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þórólfur segir Færeyjar vera víti til varnaðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir stöðuna í kórónuveirufaraldrinum góða og það sé rými til að slaka á sóttvarnaaðgerðum eins og gert er í dag. Áfram þurfi að passa sig því veiran sé ekki horfin. Hann telur Færeyjar gott dæmi um hvað geti gerst ef slakað er of mikið á aðgerðum á landamærunum. Færeyjum verður bætt inn á lista yfir áhættusvæði hér á landi eftir að smitum tók að fjölga mjög um helgina. Ekkert smit hafði greinst þar síðan um áramótin.

Eftir fjóra smitlausa daga um hvítasunnuhelgina greindist einn utan sóttkvíar í gær.

Viðkomandi er búsettur á höfuðborgarsvæðinu.  Þórólfur segir að ekki hafi tekist að tengja smitið við fyrri hópsýkingar en rakning sé í gangi og beðið sé eftir niðurstöðu úr raðgreiningu. Ekki er ljóst hversu margir þurfa að fara í sóttkví en það skýrist í dag.

Verulega er slakað á samkomutakmörkunum í dag og Þórólfur telur það rétt miðað við stöðuna eins og hún er í dag. „Auðvitað vitum að veiran er enn í samfélaginu og þess vegna leggjum við áherslu á að fólk passi sig áfram því þetta er ekki búið. Vonandi þurfum við ekki að stíga einhver skref til baka.“

Þórólfur nefnir Færeyjar sem dæmi.  Þar hafði ekki greinst smit frá því um áramótin en nú er verið að skoða hvort herða þurfi sóttvarnaaðgerðir eftir fjölda smita þar sem 25 eru nú í einangrun með virkt smit. „Færeyingar voru búnir að slaka á aðgerðum á landamærunum og eru kannski aðeins að súpa seyðið af því núna. Þetta er eitthvað sem við þurfum að passa okkur á.  Og svo þurfum við líka að passa okkur á einstaklingsbundnum sýkingavörnum, þær skipta mestu máli þótt verið sé að slaka á.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV