Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þarf að manna ferðaþjónustuna mikið til upp á nýtt“

25.05.2021 - 17:45
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Formaður félags fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu, Kristófer Oliversson, segir nú bráðvanta starfsfólk í þjónustugeirann í sumar, uppbygging til framtíðar sé hafin í ferðaþjónustunni.

Þarf mikla mönnun þrátt fyrir fáa gesti til að byrja með

„Um leið og það opnar hótel þarftu að manna það alveg upp og það er kannski í aðra röndina það jákvæða en í hina svolítið vandinn hjá okkur við þurfum að manna upp hótelin og vera tilbúin að taka á móti fáum gestum til að byrja með,“ sagði Kristófer. Hann ræddi við Hrafnhildi Halldórsdóttur og Andra Frey Viðarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

Hann segir ferðamönnum svo munu fjölga jafnt og þétt næstu vikur og því verði mjög mikil þörf á starfsfólki á næstu vikum og mánuðum. „Þá þarf að manna ferðaþjónustuna mikið til upp á nýtt.“

Leitast við að ráða sama starfsfólkið aftur en aðstæður breyttar

Kristófer segir að mögulega sé eitthvað af fyrrum starfsfólki í hótel- og gistiþjónustu farið aftur til síns heima í kjölfar atvinnumissis.

„Í einhverjum tilfellum á fólk sín réttindi hér á landi og jafnvel þá ódýrara að lifa annars staðar en hér og þiggur þá bætur og kemur þá vonandi aftur. Á sínum tíma þegar við sögðum upp fólki og ríkið kom til móts við okkur með styrki á uppsagnarfresti þá skuldbundum við okkur til þess að ráða þetta fólk aftur. Þannig að við erum búin að vera í sambandi við allt það fólk, en aðstæður breytast eins og gengur.“ Atvinnurekendur snúi sér þá fyrst til Vinnumálastofnunar til þess að finna starfsfólkið.

„En við megum ekki gleyma því að það er ekkert búið að vinna úr skuldavanda fyrirtækja og annað slíkt, því hefur bara verið ýtt á undan þannig að nú er allur sá slagur eftir. 
En tekjurnar eru forsendan til þess að sigrast á skuldunum þannig að þetta er allt skref í rétta átt.“

Mesti hitinn á Reykjanesinu

Hann segir eftirspurnina eftir vinnuafli mesta eins og er á Reykjanesinu og höfuðborgarsvæðinu. „Það er mesti hitinn á Reykjanesinu í orðsins fyllstu merkingu. En þetta mun náttúrulega eiga við allt landið þegar frá líður,“ segir Kristófer. Bandaríkjamenn séu nú að koma til landsins að vera í lengri tíma en tíðkist og muni þá ferðast í meira mæli um landið.