Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Styrktarsjóður til eflingar nýsköpun í geðheilbrigði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsamtökin Geðhjálp leggja 100 milljónir króna til stofnunar Styrktarsjóðs geðheilbrigðis, og óska eftir því að ríkið verði með í stofnun sjóðsins og leggi til sömu fjárhæð. Einnig hefur verið leitað eftir stuðningi atvinnulífsins, að sögn Héðins Unnsteinssonar formanns samtakanna. 

„Við höfum fundað með ráðuneytisstjórum félagsmála-, forsætis- og heilbrigðisráðuneyta og viðbrögðin voru jákvæð. Engin vilyrði eða loforð voru þó gefin.“

Geðhjálp sér einnig fyrir sér að tíu fyrirtæki leggi fram tíu milljónir í eitt skipti hvert. Þá yrði nafn þeirra tengt sjóðnum til framtíðar. Héðinn kveðst hafa fundið fyrir áhuga fyrirtækja og því verði sjónum á næstunni beint að því að komast í samband við þau. 

Varað við geðrænum vanda vegna faraldursins

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað ríki heims við því að geðrænum vandamálum eigi eftir að fjölga vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. „Maður sér tölur frá Danmörku, Bretlandi og víðar um sjálfskaða ungmenna og geðheilsu almennt.“

Héðinn segir málaflokkinn mjög huglægan. „Eini mælikvarðinn sem við höfum er tíðni sjálfsvíga og mögulega sjálfskaðandi hegðunar. Hlutlægir mælikvarðar eru varla til, hversu mikil þarf vanlíðan að vera til að geta talist röskun?“

„Við erum klár á því að svona sjóður getur veitt nýjum hugmyndum brautargengi og haft áhrif á kerfið í heild sinni.“ Héðinn segir umræðuna um geðheilbrigði hafa fengið aukið vægi í kórónuveirufaraldrinum.

„Umfang málaflokksins fyrir COVID var áætlað um 30% af heilbrigðiskerfinu en fjármögnunin ætluð aðeins um 12% að þeim 300 milljörðum sem fara í heilbrigðiskerfið.“

Nýsköpun og sprotar styrktir

Með sjóðnum sé von til að mögulegt verði að stuðla að aukinni nýsköpun og framþróun innan geðheilbrigðismála og vitundarvakningu meðal almennings. 

Ætlunin sé að sjóðurinn styrki nýsköpunar- og sprotaverkefni. „Við skildum þetta eftir opið í stofnskránni. Það er hlutverk fagráðs að ákveða sniðmátið fyrir umsóknir.“

Opnað verður fyrir umsóknir 1. júní og Geðhjálp bætir því við fjármagni, að sögn Héðins. „Það eru ekki miklir vextir af 100 milljónum í tvo til þrjá mánuði, þannig að bætt verður við fé fyrsta úthlutunarárið.“

Höfuðstóllinn verði aldrei skertur sem þýðir að verði sjóðurinn 300 til 350 milljónir verði hægt að úthluta 20 til 30 milljónum árlega án þess að höfuðstóllinn skerðist.

„Það dugar klárlega vel til nýsköpunar og til að koma einhverju af stað, við sjáum svona sjóð bara vaxa.“ Geðhjálp seldi húseign árið 2013 og stjórnin vildi koma fjármagninu í vinnu.

Þörf á frumkvæði og nýsköpun

„Við vildum bara opna fyrir möguleikana á að veita hugmyndum brautargengi.“ Umsóknarfrestur er til 1. september og styrkjum verður úthlutað 9. október, á stofndegi Geðhjálpar.

Fyrir ári hafi hugmynd að stofnun sjóðsins kviknað og undirbúningur staðið síðan. Héðinn segir iðulega berast beiðnir um fjárveitingar í ýmis verkefni, sjóðurinn sé alveg óháður Geðhjálp þó formaður félagsins sé formaður sjóðsstjórnar.

„Okkur finnst þetta tilvalið farartæki til framþróunar í þessum málaflokki. Að veita tækifæri og fjármuni til þeirra sem stunda rannsóknir og koma þeim af stað sem eru með hugmyndir að nýsköpun í meðferð og endurhæfingu,“ segir Héðinn.

„Þörf er á frumkvæði og nýsköpun við hlið eða í stað hefðbundinna aðferða og nálgunar.”  

Í stjórn Styrktarsjóðs geðheilbrigðis eru Héðinn Unnsteinsson, formaður, Guðrún Sigurjónsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason. Í fagráði, sem er óháð Geðhjálp, sitja Helga Sif Friðjónsdóttir, formaður, Björn Hjálmarsson, Hrannar Jónsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Svava Arnardóttir.