Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Störf í sveitarstjórn verði skilvirk og fjölskylduvæn

Mynd:  / 
Lagt er til að níu manna sveitarstjórn verði í sameinuðu sveitarfélagi Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Formaður sameiningarnefndar segir mikilvægt að tryggja að störf sveitarstjórnarfulltrúa séu bæði skilvirk og fjölskylduvæn.

Laugardaginn 5. júní verður kosið um sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Lagt er til að níu manna sveitarstjórn verði í sameinuðu sveitarfélagi, stjórnsýslunni verði skipt upp í þrjú svið og fimm fastanefndir starfandi.

Meiri skilvirkni í níu manna sveitarstjórn

Helgi Héðinsson, formaður samstarfsnefndar um sameiningu, segir að miðað við þennan nefndafjölda sé meiri skilvirkni fólgin í níu manna sveitarstjórn en sjö manna, eins og einnig hafi komið til greina, en sveitarstjórnarfulltrúar verði jafnframt formenn fastanefndanna. „En með því að fulltrúarnir séu níu þá séu jafnframt einhverjir sem hafi þá tök á að gefa kost á sér án þess að þurfa að leiða nefndarstarf. Því að, eins og gefur að skilja, þegar þú ert bæði fulltrúi í sveitarstjórn og að leiða nefnd þá er það orðin býsna mikil vinna.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson

Unnið á dagvinnutíma og fleiri fjarfundir 

Til að fólk geti sinnt störfum við sveitarstjórn, eins og hverri annarri vinnu, verði starf sveitarstjórnarfulltrúa skilgreint sem ákveðið starfshlutfall. Vinnan fari fram á dagvinnutíma og fjarfundabúnaður verði í auknum mæli nýttur við fundahöld. „Tillagan er í rauninni dálítið sniðin utan um það að gera þetta annars vegar skilvirkt og hins vegar fjölskylduvænt,“ segir hann.

Engin áhersla á eitt ráðhús

Athygli vekur að hvergi er minnst á hvar sveitarstjórn skuli sitja eða sviðsstjórar og ekkert er rætt um ráðhús á einum stað. „Ég held að það sé allt að því útilokað að það verði reist eitthvað nýtt ráðhús, “ segir Helgi. „Það eru starfsstöðvar annars vegar í Reykjadal og hins vegar í Reykjahlíð, sem við munum eflaust halda og það ráðist bara dálítið af starfsmönnunum hvar menn sitji hverju sinni.“

Vilja auka sveigjanleika og minnka álag

Hann segir að eitt af því sem einkenni búsetu á þessu svæði séu miklar vegalengdir. Það auki því tækifæri fólks og minnki tímann sem það er að eyða í vinnunni ef ekki er lögð þung áhersla á að verið sé að keyra í einhverja tiltekna starfsstöð í vinnu. „Covid hefur kennt okkur að þessi fasta viðvera, sem er bundin við einhvern tiltekinn vinnustað, hún á ekki rétt á sér nema að einhverju takmörkuðu leyti. Við munum halda áfram að nota starfsstöðvarnar þar sem þær eru, en við sjáum líka fyrir okkur að auka sveigjanleikann í vinnunni.“