Laugardaginn 5. júní verður kosið um sameiningu Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Lagt er til að níu manna sveitarstjórn verði í sameinuðu sveitarfélagi, stjórnsýslunni verði skipt upp í þrjú svið og fimm fastanefndir starfandi.
Meiri skilvirkni í níu manna sveitarstjórn
Helgi Héðinsson, formaður samstarfsnefndar um sameiningu, segir að miðað við þennan nefndafjölda sé meiri skilvirkni fólgin í níu manna sveitarstjórn en sjö manna, eins og einnig hafi komið til greina, en sveitarstjórnarfulltrúar verði jafnframt formenn fastanefndanna. „En með því að fulltrúarnir séu níu þá séu jafnframt einhverjir sem hafi þá tök á að gefa kost á sér án þess að þurfa að leiða nefndarstarf. Því að, eins og gefur að skilja, þegar þú ert bæði fulltrúi í sveitarstjórn og að leiða nefnd þá er það orðin býsna mikil vinna.“