Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðherrar opnuðu TextíLab á Blönduósi

25.05.2021 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fyrsta stafræna textílsmiðjan á Íslandi, TextíLab, var opnuð í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi á dögunum. Textílsmiðjan er útbúin stafrænum tækjum sem tengjast textílvinnslu, eins og vefnaði, prjóni, þæfingu og útsaumi.

Þegar hefur verið fjárfest í stafrænum vefstól, prjónavél og útsaumsvél, nálaþæfingarvél, auk leiserskera og vínylprentara. Unnið er að frekari fjármögnun tækjakaupa.

Alþjóðleg miðstöð í textíl

Markmiðið er að Textílmiðstöð Íslands verði alþjóðleg miðstöð í rannsóknum og þróunarstarfsemi í textíl, listum og handverki byggðu á íslenskum hráefnum og hefðum. Þá er stefnt að uppbyggingu textílklasa í tengslum við verkefnið. Ráðherrar iðnaðar- og menntamála, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Lilja Alfreðsdóttir, klipptu á þráð úr húnvetnskri ull og vígðu smiðjuna formlega.

Aðstaða sem hefur vantað lengi

„Það hefur vantað aðstöðu og stafræna smiðju með áherslu á textílinn og nú er hún orðin að veruleika,“ segir Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textílmiðstöðvar Íslands. „Þetta er frábær aðstaða til rannsókna, nýsköpunar og þróunar fyrir nemendur í hönnun, handverksfólk, listamenn, bara nefndu það. Alla sem hafa áhuga á að þróa og vinna með textíl.“