Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Plastmenguð molta úr GAJU einungis nothæf á haugana

Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Moltan sem Sorpa framleiðir í GAJU; Gas- og jarðgerðarstöðinni í Álfsnesi, inniheldur allt of mikið plast og nýtist ekki annars staðar en á haugunum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla að byrja að safna lífrænum úrgangi til að hráefnið í moltuna verði boðlegt.  

Moltuefnið 

Allt óflokkað heimilissorp höfuðborgarbúa ratar í móttöku- og flokkunarstöð Sorpu. Þar eru pokar skornir upp, hrært í og blandan svo flutt í Gas- og jarðgerðarstöðina. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Moltuefnið nýkomið úr flokkunarstöðinni.

Á myndinni má sjá moltuefnið sem er ekki brúklegt vegna þess að það er allt of mikið af plasti og óhreinindum í því. Þetta er samt ekki alveg eins slæmt og það lítur út fyrir að vera því plastið og þetta létta efni er efst og svo er lífrænna og betra moltuefni neðar í haugnum.

16 vikna ferli

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Hér kennir ýmissa grasa.

Kaffihylkin eru sérstaklega áberandi, stöku vínflöskutappi, skilagjaldskyldar umbúðir, alls konar dót. Eftir komuna í stöðina á efnið í haugnum 16 vikna ferðalag fyrir höndum. „Við blöndum það með stoðefnum og setjum inn í vinnslukrær þar sem fer fram gas- og jarðgerð, síðasta stigið er svo sigtun og frágangur á moltunni,“ segir Eiður Guðmundsson, staðarstjóri í Álfsnesi. Alls eru vinnslustigin fimm talsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Eiður Guðmundsson, staðarstjóri í Álfsnesi.

Meginmarkmið gas- og jarðgerðarstöðvarinnar er að koma í veg fyrir að metan frá rotnandi úrgangi sleppi út í andrúmsloftið með tilheyrandi loftslagsáhrifum. Metangasið er aðalafurð stöðvarinnar en moltan átti að nýtast líka, nú er hún í ruslflokki og eingöngu notuð til að breiða yfir gömlu haugana í Álfsnesi.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Stoðefni sem er blandað saman við moltuefnið.
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Moltan fær að malla í vinnslukróm.

Að safna lífrænu eina lausnin

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að hráefnið sé ekki nógu gott. „Eftirlitsaðilar hafa bent okkur á að til að við getum farið með moltuna sem söluvöru út fyrir okkar athafnasvæði þá þarf hráefnið sem kemur í moltuna að vera sérsafnaður eldhúsúrgangur, þetta sem þú sérð hér er klárlega ekki það.“

En varla kemur það á óvart? Jón Viggó segir að bent hafi verið á vandann áður, Sorpa hafi einfaldlega unnið með það söfnunarkerfi sem var við lýði þegar tekin var ákvörðun um að byggja stöðina. Nú sé ljóst að gera þurfi breytingar. „Besta lausnin er sérsöfnun á lífrænu efni og það er ákvörðun sem eigendur hafa nú þegar tekið,“ segir hann. 

Fjögurra tunnu kerfi kemur til greina

Verkefnahópur vinnur að því að útfæra söfnunina nánar. Til skoðunar er fjögurra tunnu kerfi við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu; ein tunna fyrir pappa, önnur fyrir plast, sú þriðja fyrir málma og sú fjórða fyrir lífrænan og blandaðan úrgang. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

Plastið yfir viðmiðum og slæmt þegar einhver hendir rafgeymi

Eftir fimm stiga og 16 vikna vinnsluferli er moltan orðin býsna myndarleg, hún er búin að fá að malla í vinnslukróm, oft við mikinn hita. Plastruslið hefur verið sigtað frá að mestu og sent í urðun. Samt er þessi molta langt frá því að vera nógu góð, hún er 1,7% plast en plastinnihald má samkvæmt stöðlum ekki fara yfir 0,12 - 0,25%. Þegar einhver svo hendir rafgeymi eða spilliefnum í ruslið, eins og gerist enn, rjúka þungmálmagildi moltunnar upp úr öllu valdi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Lokaafurðin.

Jón Viggó væntir þess að lífræna tunnan dúkki upp fyrir utan heimili fólks á höfuðborgarsvæðinu einhvern tíman á næstu tveimur árum. Eftir það á moltan úr GAJU að verða nothæf.