Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nokkrar vikur til stefnu áður en hraunið ógnar veginum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Allar leiðir til að verja Suðurstrandarveg verða skoðaðar. Kostnaður og hvað verja skal skiptir máli, að sögn umhverfisverkfræðings. Í vikunni verða skoðaðir allir möguleikar til að verja veginn fyrir hraunflæði úr Nátthaga.

Hörn Hrafnsdóttir, umhverfis- og byggingarverkfræðingur hjá Verkís, segir að tekið sé að skýrast hve langan tíma það tekur hraunið að ná Suðurstrandarvegi. Vinna þurfi hratt svo hægt verði að klára þær aðgerðir sem farið verði í. 

„Í kjölfarið verður skoðað og valið úr hvað væri best að skoða betur.“

Nú greinir sérfræðinga á hve langan tíma það tekur hraunið að ná Suðurstrandarvegi. Þarf ekki að hafa hraðar hendur?

„Miðað við hvernig þetta er núna og hvernig flæðið sem fer niður í Meradali hegðar sér eru þetta sambærilegar aðstæður. Það er brött brekka og dalur fyrir neðan. Þetta er að gerast sæmilega rólega þannig að við höfum alveg vikur til stefnu.“

Margt velti á hvaða aðgerðaáætlun verði fyrir valinu. Nokkur tími sé til stefnu en vinna verði hörðum höndum að því að ákveða hvað verði gert en meta þurfi hve langt eigi að ganga. Þar spili kostnaður inn í og hvað verið sé að verja. 

„Hvort það verði nýjar stíflur, eða betri einangrun við Mílu-strenginn.“

En þarf öflugri mannvirki?

„Til þess að stöðva hraun að fullu þyrftum við heilt fjall. Þannig að það þarf aðeins að skoða þetta betur og meta betur hve langt eigi að ganga og hvort skoða eigi einhverjar aðgerðir við Suðurstrandarveginn. Það er líka í umræðunni.“ 

Hörn segir að ræða þurfi hugmyndir verkfræðinganna við jarðfræðingana í hópnum og fulltrúa Veðurstofunnar.  Hún segir mikilvægan lærdóm mega draga af því að varnargarðarnir við eldstöðvarnar gáfu sig ekki. 

„Það var yfirflæði yfir eystri stífluna en mannvirkið sjálft stendur. Það gaf sig ekki en þá hefði orðið hraðara flæði og hættulegri aðstæður. Það sem við sjáum út úr þessa eru ágætis niðurstöður um öryggismál og annað slíkt. Einnig hvernig svona yfirflæði hegðar sér. Við lærðum af þessu.“