Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lesskilningur drengja vel undir meðaltali OECD

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Árangur stúlkna er í langflestum tilvikum betri en drengja innan íslenska menntakerfisins, sé litið til niðurstaðna úr samræmdum könnunum. Árangur íslenskra drengja er í nokkrum tilvikum langt undir meðaltali OECD.

 

Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Þau gögn sem liggja til grundvallar svarinu eru lesfimipróf Menntamálastofnunar í 1. til 10. bekk, samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 9. bekk og PISA-rannsókn meðal 15 ára nemenda.

Í öllum tilvikum er frammistaða stúlkna í öllum námsþáttum að jafnaði marktækt betri en frammistaða drengja. Eina undantekningin er lesskilningshluti úr samræmdum prófum í ensku þar sem námsárangur pilta er marktækt betri en stúlkna.

Vel undir meðaltali OECD í lestri

Munurinn milli kynjanna er afgerandi mestur í lesskilningi meðal 15 ára nemenda, en þar munaði 40 stigum á kynjunum. Rúmlega þriðjungur drengja náði ekki skilgreindum lágmarksviðmiðum í könnuninni en hlutfallið var 18,7 prósent hjá stúlkum. Til samanburðar voru að jafnaði 27,7 prósent drengja í ríkjum OECD undir lágmarkinu og 17,5 prósent stúlkna.

Stúlkur á Íslandi hlutu einnig marktækt fleiri stig en drengir í læsi á stærðfræði í PISA-könnuninni en munurinn er töluvert minni en í lesskilningi, eða 10 stig. Ísland sker sig hér nokkuð úr því í flestum OECD-ríkjum var kynjamunur í læsi á stærðfræði drengjum í hag.

Lítill marktækur munur var á frammistöðu kynjanna í læsi á náttúruvísindum í sömu könnun, þar sem stúlkur hlutu átta stig umfram drengi. Hlutfall íslenskra drengja sem ekki náði lágmarksviðmiðum í læsi á náttúruvísindi í PISA er yfir meðaltali OECD-ríkja.

Velja mjög ólíkar námsleiðir í framhaldsskóla

Ekki er unnt að bera saman námsárangur kynjanna á framhaldsskólastigi en svarið leiðir í ljós að mikill munur er á vali á námsleiðum. Þannig brautskráðust 77 prósent fleiri piltar en stúlkur með burtfararpróf úr iðnnámi skólaárið 2018-2019 en 35 prósent fleiri stúlkur en piltar útskrifuðust með almennt stúdentspróf sama ár.

Mun fleiri konur í háskólanám

Sé litið til háskólastigsins kemur í ljós að meðaleinkunn kvenna á árunum 2010-2019 er að jafnaði 0,35 hærri en karla. Þá eru konur líklegri til að ljúka því grunnnámi sem þær innritast í.

Ríflega helmingur kvenna á aldrinum 25 til 64 ára hefur lokið háskólagráðu á móti 35 prósent karla. Segir í svarinu að líkleg skýring sé brotthvarf drengja úr framhaldsskólum.

Slíkur munur er ekki einskorðaður við Ísland því í öllum 28 ríkjum Evrópu eru konur meirihluti nemenda. Hlutfall karla er þó hvergi lægra en á Íslandi.