Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja til hraunvarnir við Grindavík og Svartsengi

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Ráðast þyrfti í umfangsmiklar aðgerðir til að verja innviði á Reykjanesskaga vegna eldsumbrota sem búast má við á næstu árum, áratugum og öldum. Verja þarf bæi, orkuver, heita- og kaldavatnslagnir og háspennulínur. Hópur, sem almannavarnir hefur kallað til, telur að rétt sé að hefja vinnu við forvarnir frekar en að bregðast við þegar eldgos er hafið.

Almannavarnir fengu hóp verkfræðinga frá Verkís og Eflu auk jarðvísindamanna frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni til að kortleggja innviði á Reykjanesskaganum og hvernig hægt sé að verja þá, gjósi á skaganum. Vinna hópsins hófst 10. mars síðastliðinn, áður en gosið í Geldingadölum hófst. Vinnan tekur því ekki aðeins mið af því gosi, heldur eldsumbrotum sem gætu orðið á næstu árum, áratugum og árhundruðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, er verkefnisstjóri verkefnisins sem kallað er Varnir mikilvægra innviða.

Hópurinn hefur ekki skilað endanlegri niðurstöðu, eldgosið setti strik í reikninginn, en Spegillinn fékk aðgang að minnisblöðum hópsins. Þar er reynt að draga lærdóm af vörnum, til að mynda úr Heimaeyjargosinu, en fyrst og fremst frá gosum í Kilauea-eldfjallinu á Hawaii og Etnu á Sikiley. Bæði eldfjöllin eru afar virk, nærri byggð og þar hefur ýmislegt verið reynt til að koma í veg fyrir að hraun renni yfir mikilvæga innviði og heimili fólks. 

Lava flow from the 1991–1993 eruption of Etna stalling behind an earthen barrier while an artificial channel is built downhill. Image modified from Barberi et al. (1993)

Hraun við varnargarð í eldgosi í Etnu sem stóð frá 1991 til 1993. Mynd frá Barbieri og fleirum. 

Í upphafi hefur fyrst og fremst verið einblínt á svæðin í kringum Grindavík þar sem hræringarnar hafa verið mestar síðustu misseri. Til að meta hættuna sem stafar af hrauni hafa verið keyrð forrit til að meta hraunflæði úr þekktum sprungum á svæðinu. 

Hópurinn setti upp 17 sviðsmyndir út frá eldgosasögu svæðisins, gígum og sprungum við Grindavík og Svartsengi. Svo var hraunrennslið reiknað út. 

„Við sjáum auðvitað að það er ógn við orkuverið í Svartsengi, Grindavík og Voga líka, ef það er mjög mikið rennsli til norðurs,“ segir Ari Guðmundsson byggingarverkfræðingur. 

Hópurinn telur að heppilegt sé að reisa garða til að verja byggðina í Grindavík og Svartsengi og veitukerfin þar. 

„Við höfum lagt til og það hefur komið út úr þessari að vinna ákveðna forvarnarvinnu, vegna þess að við sjáum á þessum framkvæmdum við gosstöðvarnar að þetta tekur tíma að reisa svona garða. Það er hægt að ákveðnu marki í miklum flýti,“ segir Ari.

„Langæskilegast væri að undirbúa okkur vel og vinna ákveðnar forvarnaraðgerðir. Þær gætu falist í því að losa efni úr námum, þannig að við eigum laust efni í námum ef það þarf að keyra það með stuttum fyrirvara. Jafnvel að fylla í ákveðnar lægðir sem eru erfiðar í þeim varnargarðastæðum sem við höfum lagt til og mögulega þá að forvinna eitthvað af þeim varnargörðum sem við höfum lagt til, segjum upp í tvo metra, þannig að það sé búið að leggja út línuna.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Lyndal Magnússon
Grjótnáma við Suðurstrandarveg, rétt við Fagradalsfjall.

Í Grindavík búa um 3.500 manns, þar er útgerð og fiskvinnsla og mikilvæg höfn, svo að eitthvað sé til talið. Við Svartsengi er Bláa lónið, einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og stór vinnustaður og á Svartsengissvæðinu á hiti, rafmagn og ferskvatn Suðurnesjamanna uppruna sinn. 

Orkuverið er jarðvarmavirkjun, það framleiðir rafmagn og varma. Ferskvatnið kemur úr borholum í nágrenninu. Hluti þess er neysluvatn fyrir íbúana, hluti er hitaður með varmanum úr virkjuninni og nýttur til húshitunar á Suðurnesjum. Rafmagnið fer inn á Landsnetið. Affallsvatnið nýtir nágranni orkuversins - Bláa lónið. Það er því mikið í húfi fyrir ríflega 28 þúsund íbúa Reykjanesskaga að hægt sé að halda virkjuninni starfandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Lyngdal Magnússon
Orkuverið í Svartsengi telst til mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

Orkuverið stendur hins vegar í lægð í landslaginu og hópurinn telur þörf á að reyna að verja það og veiturnar sem tengjast því, segir Ari. 

Svartsengislína liggur frá orkuverinu. 

„Við höfum gert tillögur að staðbundnum vörnum við hvert og eitt háspennumastur, það er svo sem ekkert auðvelt ef að þetta er mjög stórt svæði, þá eru þetta mörg háspennumöstur sem yrðu útsett fyrir hraunrennsli, þá yrðu varnirnar mun erfiðari. Svo ef að hraunið hækkar við háspennumöstur, þá er orðið styttra upp í línuna og gæti verið að hún verði órekstrarhæf af þeim sökum.“

Þegar þú talar um að hún verði órekstrarhæf, þá er það hreinlega hiti sem stafar af hrauninu?

 „Já. Þannig að það þarf að skoða mun nánar þessar varnir og mögulega þá breytt línustæði, sem væri þá á svæði sem er minna útsett fyrir hraunrennsli miðað við þær hermanir sem við höfum verið að skoða.“

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Lyngdal Magnússon
Hópurinn óttast að hraun eigi greiða leið að Svartsengi.

Sverar rauðar stálpípur sem liggja um allt við orkuverið eru heitavatnslagnir. Þær liggja á stöplum með nokkurra metra millibili og eru rétt ofan við jörðu. Ari bendir á að svona pípa þyldi ekki að hraunrennsli. 

„Við höfum gert tillögu að því að verja þessar lagnir með því að setja jarðveg í kringum þær og yfir þær. Það þarf reyndar að gerast þannig að það sé mjög aflíðandi flái þannig að við séum ekki að byggja varnargarð. Hinn möguleikinn er að þar sem við sjáum að mesta hraunrennslið yrði mögulegt væri að setja þá lögnina þar staðbundið í jörðu, eða alla lögnina í jörðu. Það eru þeir valkostir sem við höfum verið að draga fram.“

Hópurinn bendir jafnframt á að lögnin til Njarðvíkur sé orðin gömul, íbúafjöldi hafi aukist og að það væri æskilegt til framtíðar að tvöfalda þá lögn. 

Vatnið í kalda krana Suðurnesjamanna kemur úr gjám og borholum skammt norðan við Svartsengi. Það er sem fyrr segir líka hitað upp í orkuverinu fyrir heita kranann. Tvær megin kaldavatnslagnir eru á svæðinu. Önnur seigjárnslögn, hin úr plasti. 

„Við höfum meiri áhyggjur af þessari plastlögn en seigjárnslögninni sem er í jörðu, okkur sýnist að hún gæti orðið í lagi,“ segir hann. „En það þarf að verja líka þessa vatnstökustaði og það væri hægt að gera staðbundið með varnargörðum.
En svo getur náttúrulega vatnið mengast vegna gossins.

„Jú, það hafa verið vangaveltur um það. Það á eftir að rannsaka það meira, hversu mikil hætta er gagnvart því, en þetta er eitt af þeim atriðum sem við höfum velt upp líka,“ segir Ari Guðmundsson byggingarverkfræðingur hjá Verkís.  

Spegillinn fjallar áfram næstu daga um hugmyndir um hraunvarnir á Reykjanesskaga, staðsetningu mögulegra varnargarða til að verja Grindavík og Svartsengi og hugmyndir um hvernig heppilegast væri að reisa þá. 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV