Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hlutfall nýskráðra nýorkubíla næsthæst á Íslandi

25.05.2021 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hlutfall nýskráðra nýorkubíla hér á landi var 45% árið 2020. Þar með er Ísland með næstmesta hlutdeild þegar kemur að kaupum slíkra bíla, næst á eftir Noregi. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Trading Platforms gerði um sölu endurhlaðanlegra bíla um allan heim. 

FÍB greinir frá þessu á vefsíðu sinni en hlutfall kaupa á nýorkubílum var tæp 75% í Noregi 2020. Svíar eru í þriðja sæti með 42,2%. Rafbílar höfðu um 20% markaðarins í Þýskalandi og 15% í Bretlandi og Þýskalandi.

Kína er í sextánda sæti en Evrópuríki skipa öll sætin þar fyrir ofan. Þar í álfu tvöfaldaðist sala rafbíla annað árið í röð, búist er við að sú verði raunin aftur í ár og að hlutdeildin verði um 15%. Þar seldust 1,4 milljónir rafbíla á liðnu ári.

Markaðshlutdeild rafbíla var um 1% í Noregi fyrir um áratug en Norðmenn hafa löngum verið leiðandi í rafbílavæðingu. Niðurstöður nýlegrar könnunar þar í landi sýna að fólk undir fimmtugu, meira menntað og með hærri tekjur hefur mestan áhuga á að eignast rafbíl.

Fólk úti á landsbyggðinni, sem hingað til hefur keypt sér dísilbíla, er hlynntara en það sem býr í borgum. Eins kemur fram að viðhorf dísil- og bensínbílaeigenda sveiflist til, en þeir telji þó kaup á rafbíl vera skynsamlegan kost.