Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hallgrímur veltir fyrir sér að kæra eftirlit

Mynd: RÚV / RÚV
Hallgrími Helgasyni rithöfundi var brugðið við fréttir Kjarnans og Stundarinnar síðustu daga sem leiddu í ljós að svonefnd skæruliðadeild Samherja hafði hann í sigtinu og fletti honum meðal annars upp í opinberum skrám. Hallgrímur er harðorður í garð ríkisstjórnarinnar og ekki síst sjávarútvegsráðherra.

Í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 segir Hallgímur að það sé svakalegt að njósnað sé um heimili hans og eignum hans flett upp.

Eftirlitið hófst í kjölfar greinarskrifa

Hann telur að eftirlit með honum hafi byrjað í kjölfar greinar hans í Stundinni undir yfirskriftinni Kaldir ofnar á Dalvík

Þar skrifaði hann um fjár­fest­ing­ar í inn­við­um, nið­ur­skurð og einka­væð­ingu og Samherja bar mjög á góma.

„Ég skrifaði grein 2019 þegar varðskipið Þór var við kæjann á Dalvík að knýja bæinn í miklu rafmagnsleysi. Mér fannst þetta táknrænt fyrir arðránið sem orðið hefur á Íslandi, innviðirnir eru í molum og við gerum ekki ráð fyrir rafmagnsleysi.“

Hann rifjar upp að á síðasta ári hafi verið rafmagns-, síma- og útvarpslaust á Siglufirði um vikutíma. „En þetta fólk hefur kannski ekki nógu háa rödd til að nokkur taki eftir því. Það er búið að mergsjúga samfélagið og allir milljarðarnir fara í skattaskjól í Karabíska hafinu.“

„Samherji er búinn að koma öllu undan í gegnum flóknar fléttur á Kýpur og í skattaskjólum meðan peningar hefðu getað farið í uppbyggingu innviðanna eins og þegar ég var að alast upp.“

Hallgrímur segist hafa verið að gagnrýna hvernig inniviðir íslensks samfélags hafi grotnað niður undanfarin ár og áratugi á meðan gróðinn fór annað.  

„Greinin byggði á minningum af því að verið var að byggja upp íslenskt samfélag, þetta var enn stemmningin 1976 til 1980 sem voru gullaldarár ríkisrekstursins. Svo kom frjálshyggjan og eyðilagði það.“ 

Gera átti Hallgrím tortryggilegan

„Maður hefur stundum hugsað að það geti verið raunin að einhver sé að fylgjast með manni. Þegar maður sér það gerast bregður manni auðvitað og finnst það óþægilegt. Ekki síst gagnvart nágrönnunum sem eiga þennan bíl sem flett var upp.“ 

Í tölvupóstsamskiptum milli Þorbjörns Þórðarsonar lögmanns og Páls Steingrímssonar skipstjóra hjá Samherja kemur fram að gera eigi Hallgrím tortryggilegan með því að ljóstra því upp að listamaður á listamannalaunum aki um á dýrum rafmagnsbíl.

Páll er skráður höfundur nokkurra greina þar sem atlaga er gerð að blaðamönnum og uppljóstrara í Samherjamálinu.

Hvernig blasir þetta við þér?
„Mér finnst þetta ekki svo alvarlegt í mínu tilfelli, kannski meira kómískt, ég er sakaður um að vera á listamannalaunum sem er klassísk ásökun. Ég er ríkisstarfssmaður á listamannalaunum sem á að vera einhver glæpur,“ segir Hallgrímur.

„Þar með á maður að vera með skert málfrelsi og mega ekki tala um hitt og þetta því ríkið er að greiða manni laun. Svo er reynt að finna út hvort ég eigi Teslu-bíl sem stendur í innkeyrslunni og nágrannarnir uppi eiga. Það er eins og keyrt hafi verið fram hjá heimilinu, njósnað og reynt að fylgjast með manni. Og flett upp í skrá sem mér skilst að sé ólöglegt.“

Segir Samherja skulda sér Teslu

Hallgrímur kveðst vera að bræða með sér að fara í mál en margir hafi hvatt hann til þess. „Mér finnst eiginlega að Samherji skuldi mér eina Teslu eða svo.“ Hann segir að það virki aldrei að ráðast á listamenn, „það er eins og þeir stækki við það, sko.“

Hann segist ekki hafa rætt málið við lögfræðing. „Ég las svo í blöðum um helgina að það væri lögbrot að Þorbjörn sem blaðamaður hefði verið að fletta mér upp í einhverjum skrám. Það gæti verið ólöglegt þannig að ég held þeim möguleika alveg opnum að kæra, sko.“

Hann rifjar upp samskipi sín við Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra sem kennd hafa verið við bláa hönd. „Davíð Oddsson tapaði á því en ég græddi bara á því. Listamenn eru hálfgerðar undantekningar.“

Gríðarlegt álag á þeim sem Samherji fylgist með

Honum finnst alvarlegt að Samherji hafi haft eftirlit með honum. „Þeir sem hafa verið í eldlínunni eru Jóhannes [Stefánsson] uppljóstrari og Helgi Seljan sem hafa nánast staðið einir gegn þess og verið undir gífurlegu álagi seinustu árin.“

„Þeim hefur verið hótað, það hefur verið njósnað um þá, það hefur verið setið um þá á kaffihúsum, þeir hafa fengið send SMS um miðjar nætur. Það er mjög alvarlegt mál að svona stórfyrirtæki haldi úti einhverri leyniþjónustudeild.“

Hallgrímur líkir vinnubrögðunum við erlendar leyniþjónustur. „Sé svona ríki í ríkinu með eigin Stasi-deild á litlum íslenskum mælikvarða og haldi að þeir komist upp með allt.“

„Það er málið, þeir komast upp með allt, það er aldrei gripið í taumana. Það skiptir engu hve miklar afhjúpanir eru í gangi, það eru dómsmál í Namíbíu, stórmál í Noregi þar sem bankamenn eru teknir á teppið af stjórnmálamönnum, Færeyjar loga þar sem þeir hafa svikið undir skatti. Það er allt brjálað.“

Harðorður í garð ráðherra og ríkisstjórnar

Hallgrímur segir að afleiðingarnar séu engar hér á landi. „Bráðum eru liðin tvö ár síðan þetta kom og það hefur bara ekkert gerst. Það virðist engin rannsókn vera í gangi og stjórnmálastéttin segir ekkert.“

Hann gerist mjög harðorður í garð ríkisstjórnarinnar og ekki síst Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra. „Þetta er Samherjastjórn sem gerir eins og Samherji vill. Ég meina Samherji er með sinn eiginn ráðherra í þessarri ríkisstjórn.“

Hallgrímur segir hneyksli að Kristján hafi verið gerður sjávarútvegsráðherra haustið 2017 og fer yfir ýmis mál sem hann telur til ávirðinga af hans hálfu.

Hann fullyrðir að sjávarútvegsráðherra hafi beitt áhrifum sínum í þágu Samherja, sem hafi jafnframt stjórnað honum. Hann segir Kristján eiga að hverfa úr ríkisstjórn. 

„Í fréttum um helgina kom í ljós að þau voru að reyna að búa til nothæfan framboðslista, eins og þau kölluðu það, fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Norðurlandi eystra. Þetta er lykilorð, nothæfur, að finna einhvern stjórnmálamann sem kemst til áhrifa og þeir geta notað.“

„Þetta gengur ekki lengur“

„Það er bara komið nóg, þetta gengur ekki lengur,“ segir Hallgrímur Helgason. „Þetta er allt ein klíka, ein mafía og mjög alvarlegt mál. Fólk hefur samt verið að segja að ekki megi gagnrýna fyrirtækið of mikið því það sé svo gott fólk sem vinnur hjá því.“

Hallgrímur segist ekki skella skuldinni á almennt starfsfólk Samherja sem sé gott fólk. „Þótt forstjórinn geri það sjálfur eins og á fundinum í frystihúsinu á Dalvík, honum til mikillar háðungar. Þetta snýst um toppana, Björgúlf, Þorstein Má og þeirra skæruliðadeild og svo Kristján Þór.“

Hallgrímur telur komið að vatnaskilum, viðbrögð hafi verið harkaleg og fólki ofbjóði. Hulunni hafi verið svipt af því hvernig staðið sé að málum. 

„Ég fékk sendar umræður á Facebook hjá Páli Steingrímssyni skipstjóra sem póstaði myndum af Þorsteini Má að sleppa landfestum einhvers togarans, sem sýna hvað hann er duglegur í vinnunni.“

Hann segir sér hafa brugðið við að sjá umræðuna. „Síðan kemur umræða um að þetta séu meindýr og hvaða vopn eigi að nota á þessi meindýr, birtar myndir af byssum og hvað þær séu mörg kalíber.“

Hallgrímur segir að það séu hreinlega morðhótanir í athugasemdakerfi Facebook. „Er þetta í lagi? Hvernig heldurðu að sé að lifa undir þessu, hvernig heldurðu að Jóhannesi og Helga Seljan líði?“

Hann segir þá hljóta að vera undir stöðugri pressu, þeir eigi fjölskyldur og verið sé að gera aðför að lífi þeirra.

„Hvernig heldurðu að sé að vakna á morgnana og finna og sjá að þetta fólk er að pósta myndum af byssum sem það ætlar að nota á þig sko. Þetta er ekkert grín lengur og við verðum að taka þetta alvarlega.“

„Gögnin sem komust til Stundarinnar og Kjarnans eru sennilega brot af því sem er til, þetta er bara eins og samfélagið er. Stundum flettist ofan af einhverju, kannski einhver lítill gluggi og okkur ofbýður en kannski eru ennþá hryllilegri hlutir í gangi.“