Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hálfur milljarður eftir af ferðagjöfinni

Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Enn eru ónýttur um hálfur milljarður króna vegna ferðagjafarinnar sem staðið hefur öllum eldri en 18 ára til boða frá því í júní í fyrra. Fram til mánudags er mögulegt að nýta og sækja um gjöfina. Á þriðjudag stendur ný ferðagjöf síðan til boða.

Ný ferðagjöf samþykkt í dag

Hægt verður að sækja endurnýjaða ferðagjöf á þriðjudaginn í næstu viku eftir að frumvarp um hana var einróma samþykkt á Alþingi í dag. Hún gildir frá 1. júní til 31. ágúst. Í  júní í fyrra var ákveðið að veita öllum sem voru fæddir fyrir árið 2002 eða einstaklingum eldri en 18 ára og með íslenska kennitölu fimm þúsund króna ferðagjöf. Þá voru allir hvattir til að ferðast innnanlands og tilgangurinn með gjöfinni var að glæða starfsemi ferðaþjónustufyrirtæka sem stóð frammi fyrir að erlendir ferðamenn kæmu ekki til landsins í miklum mæli. Hún átti upphaflega að gilda til ágústloka en gildistími hennar var framlengdur til 31. maí á þessu ári. Ferðagjöfin stóð um 280 þúsund manns til boða. Miðað við 5 þúsund krónur á mann gerir það 1,4 milljarða króna. Reyndin er sú að það hafa alls ekki allir nýtt sér þetta boð stjórnvalda. 10. apríl höfðu um 199 þúsund manns sótt ferðagjöfina en aðeins 139 þúsund nýtt hana sem svarar til um 787 milljóna króna. Þá voru enn um 700 milljónir til ráðstöfunar.

Enn mögulegt að sækja gjöfina

Einhverjir virðast hafa hlaupið til á síðustu metrunum. Nú hafa rúmlega 208 þúsund manns sótt gjöfina. Tæplega 175 þúsund hafa notað hana að hluta eða fullu. Hins vegar hafa tæplega 34 þúsund sem hafa sótt gjöfina ekki nýtt hana. Ósóttar  ferðagjafir eru um 70 þúsund ef miðað er við að 280 þúsund manns eigi rétt á að fá hana. Það þýðir að um 105 þúsund manns hafa ekki enn notað eða sótt gjöfina. Í peningum eru þetta um 500 milljónir króna. Enn er þó möguleiki á að nýta ferðagjöfina - en aðeins fram að mánudegi í næstu viku. Eftir það eða 1. júní fellur hún dauð niður þegar nýja ferðagjöfin tekur gildi. Hana þarf að sækja til að geta notað hana.

Mest notuð á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt mælaborði Ferðamálastofu um ferðagjöfina hafa 318 milljónir af henni verið notaðar á höfuðborgarsvæðinu og 127 milljónir á Suðurlandi. Hjá landsdekkandi fyrirtækjum nemur upphæðin 163 milljónum króna. Norðurland eystra er í þriðja sæti með 88 milljónir. Minnst hefur farið til Vestfjarða eða 15 milljónir króna.

Flayover Iceland á toppnum

Af þeim 844 milljónum sem notaðar hafa verið með ferðagjöfinni hafa 318 milljónir verið nýttar á veitingastöðum. 215  vegna gistingar, 200 milljónir í afþreyingu og 87 milljónir í samgöngur sem væntanlega þýðir að gjöfin hefur verið notuð til að fylla tankinn. Í mælaborðinu má einnig sjá hverjir eru í efstu tíu sætunum. Þar trónir Flyover Iceland á toppnum með 46 milljónir. Næst er Olís með rétt rúmar 30 milljónir og svo N1 með  svipaða upphæð. 29 milljónir runnu til Íslandshótela og Bláa lónið hefur fengið 26 milljónir í ferðagjafarpeningum. Og þess má geta að KFC hefur fengið 24 milljónir í gegnum gjöfina.

Persónuvernd skoðar appið

Þegar sótt erum ferðagjöfina er einfaldasta leiðin að hlaða niður ferðagjafarappinu. Persónuvernd hóf að eigin frumkvæði athugun á appinu sem lýtur að því hvort það samræmist reglum og lögum um persónuvernd. Sú rannsókn eða athugun er á lokastigi. Það sem hefur meðal annars seinkað henni er að illa hefur gengið að fá svör um tiltekin atriði frá stjórnvöldum. Samkvæmt upplýsingum Spegilsins bárust svör í morgun þannig að það ætti að styttast í niðurstöðu. Ekki fæst nákvæmlega upp gefið hvað það er sem Persónuvernd er að kanna. Hins vegar er ljóst að það snýst um þá upplýsingagjöf sem var krafist þegar sótt var um appið. Gerð var meðal annars krafa um  aðgang að hljóðnema og myndavél, netfang, fæðingardag og kyn notanda. Fyrirtækið Yay gerði appið. Í svari við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að appinu hafi verið breytt þegar athugasemdir bárust og að fyrirtækið telji að það uppfylli nú allar reglur og lög um persónuvernd. Einnig segir Yay að ekki sé þörf á frekari breytingum nú þegar hægt verður að sækja nýja ferðagjöf á þriðjudaginn 1. júní.