Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Allir liðsmenn Sigur Rósar sýknaðir í skattsvikamáli

25.05.2021 - 10:38
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun alla liðsmenn Sigur Rósar í umfangsmiklu skattsvikamáli. Þá var Jón Þór Birgisson, söngvari sveitarinnar, einnig sýknaður af ákæru um skattsvik í tengslum við samlagsfélagið Frakk. Sakarkostnaður upp á nærri 56 milljónir króna greiðist úr ríkissjóði.

Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson voru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2011 til 2014. Kjartan var í ákæru sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2012 og 2014.

Þá var Jón Þór Birgisson, söngvari sveitarinnar, einn ákærður fyrir 190 milljóna króna skattsvik í tengslum við samlagsfélag sitt Frakk. Þeir neituðu allir sök og kröfðust þess að málinu yrði vísað frá þar sem þeim hefði þegar verið gerð refsing. Fram komi í greinargerð verjanda þeirra að liðsmenn sveitarinnar hefðu þegar greitt 76 milljónir króna í álag.

Héraðsdómur horfði í dómi sínum til nýrra laga sem samþykkt voru á Alþingi í apríl þar sem lagt er bann við tvöfaldri refsingu. Vísar dómurinn meðal annars til nefndarálits meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem talið var að í ljósi ítrekaðra aðfinnslna mannréttindadómstólsins væri lítið svigrúm til að túlka vafa öðruvísi en sakborningum í hag. 

Sagði dómurinn að ef liðsmenn Sigur Rósar yrðu sakfelldir fæli það í sér tvöfalda refsingu sem löggjafinn hefði nú bannað. Því bæri að sýkna þá af ákærunni.

Dómurinn yfir Jóni Þór er nokkuð afdráttarlausari. Söngvarinn er þar sagður hafa gert það sem í hans valdi stóð til að tryggja að skattamál Frakks væru í réttu horfi. Hann hafi ráðið til sín sérfróðan aðila sem greindi honum ekki frá vanskilunum. Þótt það leysti hann ekki undan ábyrgð væri ósannað að hann hefði sýnt af stórfellt gáleysi. Því bæri að sýkna hann.

Málið vakti heimsathygli enda er Sigur Rós sú íslenska hljómsveit sem lengst hefur náð. Eignir að verðmæti tæpra 800 milljóna króna voru kyrrsettar um tíma en þetta voru fasteignir, ökutæki, bankareikningar og hlutafé í fyrirtækjum.