Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

5-700 sinnum meiri losun frá eldgosinu

Mynd með færslu
 Mynd: Emilía Guðgeirs - RÚV
Gasmengun frá eldgosi, álveri og jarðvarmavirkjunum herjar á viðkvæm öndunarfæri á suðvesturhorninu þessa daga. Eldgosið á Fagradalsfjalli losar fimm til sjö hundruð sinnum meira af brennisteinsdíoxíði en álverið í Straumsvík. 

Eitt af markmiðum stjórnvalda er að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar. Áætlað er að þau hafi verið sextíu árið 2018 en stjórnvöld vilja ná þeim niður fyrir fimm á ári. 

En hvað veldur loftmengun til að mynda á suðvesturhorninu?

„Í svona venjulegu ári er vorið mesti loftmengunartíminn. Þá er það yfirleitt loftmengun frá umferð. Eftir veturinn þegar göturnar eru orðnar slitnar og þorna með vorinu þá kemur oft mikið svifryk,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun. Það er því bæði útblástur frá bílum og slitið malbik í formi svifryks.

En fyrir tveimur mánuðum byrjaði að gjósa. Heill hellingur af brennisteinsdíoxíði myndast í gosinu sem berst út í andrúmsloftið.

„Hæsti toppur hingað til í byggð hefur var 2600 míkrógrömm. Það var í Vogum tiltölulega fljótlega eftir að gosið byrjaði. Til samanburðar hæsti toppur hér á Hvaleyrarholti þar sem við erum núna frá álverinu, er kannski 50 míkrógrömm, 50-100 míkrógrömm,“ segir Þorsteinn.

Ársmengun brennisteinsdíoxíðs frá gosinu er fimm til sjöhundruð falt meiri en frá álverinu í Straumsvík.

Er gosið þá að toppa losun Íslendinga þessa dagana?

„Já, já, algjörlega. Sérstaklega þegar kemur að brennisteinsmengun. Aftur á móti þegar kemur að gróðurhúsalofttegundum þá er gosið ekki hálfdrættingur á við okkur,“ segir Þorsteinn. 

Flugvélar og gasverksmiðja geta orðið fyrir gosmengun

Þessi brennisteinslosun hefur áhrif á fleira en viðkvæm öndunarfæri. Brennisteinninn getur tært málma. Gasframleiðsla Linde-gass í Vogum hefur einu sinni verið stöðvuð vegna mengunarinnar.  

Hjá Icelandair er fylgst grannt með mögulegum áhrifum eldgossins en ekki er talið að mengunin hafi áhrif á flugvélaflotann enda stoppa vélarnar alla jafna stutt í Keflavík.

Nokkrar jarðvarmavirkjanir eru líka á suðvesturhorninu. Þær losa brennisteinsvetni sem getur lagst yfir byggð. Í Hellisheiðarvirkjun er hafin niðurdæling á brennisteinsvetni.

„Orkuveitan er að dæla niður í því sem þau kalla Sulfix, erum komin í ca 70-75% af heildarlosun en eiga eftir um 20% þannig að það eru enn að koma toppar,“ segir Þorsteinn. 

Þorsteinn segir sjaldgæft að sú sólarhringsmengun fari yfir heilsuverndarmörk. 

 

Athugasemd: Í upphaflegu fréttinni í Sjónvarpsfréttum 23. maí sl. var ranglega hermt að losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð væri tvöfalt meiri en losun frá eldgosinu.