Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðræður Bandaríkjanna og Írans í hættu

24.05.2021 - 02:50
epa03593933 (FILE) A file picture dated 18 November 2005 shows the nuclear enrichment plant of Natanz in central Iran. Media reports on 21 February 2013 state that the IAEA said that Iran has begun installing advanced centrifuge machines for enriching uranium at its nuclear plant at Natanz.  EPA/ABEDIN TAHERKENAREH
 Mynd: EPA
Mögulegar viðræður um endurkomu Bandaríkjanna að kjarnorkusáttmálanum við Íran eru í mikilli óvissu eftir að ekki náðist samkomulag á milli Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar, IAEA, og Írans um áframhaldandi eftirlit.

Til stóð að stofnunin kynnti eins mánaðar framlengingu á eftirliti með kjarnorkuverum Írans í gær. Hætt var við blaðamannafundinn eftir að Íran lýsti því yfir að stofnunin fengi ekki að halda eftirliti áfram. 

Þrátt fyrir bakslagið halda viðræður IAEA og Írans áfram. Að sögn Guardian eru talsverðar líkur á því að ekkert verði úr beinum viðræðum Bandaríkjanna og Írans um endurkomu Bandaríkjanna að kjarnorkusáttmála stórveldanna við Íran ef ekki nást samningar á milli IAEA og Írans. 

Bandaríkin voru meðal ríkjanna sem gerðu sáttmála við Íran árið 2015. Ríkisstjórn Donald Trumps dró Bandaríkin svo einhliða úr samningnum árið 2018. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að Bandaríkin verði aftur samningsaðili, ef Íranir hætta að brjóta gegn sáttmálanum.

Það sem flækir stöðuna nú eru komandi kosningar í Íran. Íranskir ráðherrar sögðu um helgina líklegt að eins mánaðar framlenging á eftirliti IAEA yrði að öllum líkindum samþykkt. Harðlínumenn á íranska þinginu brugðust hins vegar harkalega við og höfnuðu framlengingunni. Þeir vilja sýna hörku gegn Bandaríkjunum, segja engar málamiðlanir koma til greina heldur sé það alfarið á könnu Bandaríkjanna að aflétta viðskiptaþvingunum.

Án framlengingar á samningi um eftirlit segjast yfirvöld í Íran eiga rétt á að eyða öllu myndefni sem hefur veirð tekið upp síðustu þrjá mánuði á kjarnorkusvæðum ríkisins. IAEA hefur ekki aðgang að myndböndunum, en var lofað að fá að líta á þau ef samningar myndu nást. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV