Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnvöld dreifa myndskeiði af Protasevich

24.05.2021 - 20:21
epa09223072 (FILE) Police officers detain a journalist Roman Protasevich attempting to cover a rally in Minsk, Belarus, 26 March 2017 (reissued 23 May 2021). A Ryanair flight from Athens, Greece to Vilnius, Lithuania, with Belarus' opposition journalist Roman Protasevich onboard, has been diverted and forced to land in Minsk on 23 May 2021, after alleged bomb threat. Protasevich was detained by Belarusian Police after landing, as Belarusian Human Rights Center 'Viasna' reports and Lithuanian President Gitanas Nauseda demanded immediate release of Protasevich.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hvítrússnesk stjórnvöld hafa sett í dreifingu myndskeið af blaðamanninum Roman Protasevich þar sem hann segist vera við góða heilsu. Hann sé samstarfsfús og játi að hafa skipulagt mótmæli gegn forsetanum Alexander Lukashenko sem er oft kallaður síðasti einræðisherrann í Evrópu. Leiðtogar Evrópusambandsins hafa bannað flugvélum frá Hvítarússlandi að fljúga inn í lofthelgi sambandsins.

Fyrrverandi yfirmaður Protasevich greindi frá því fyrr í dag að blaðamaðurinn væri hjartveikur og lægi þungt haldinn á sjúkrahúsi.  Protasevich var handtekinn í Minsk í gær eftir að farþegaflugvél Ryanair, þar sem hann var um borð, var skyndilega snúið til Minsk.

Stjórnvöld sögðu það hafa verið gert vegna sprengjuhótunar frá Hamas-samtökunum í Palestínu en þau hafa vísað því á bug.

Sjónvarpsstöðvar í eigu hvítrússneska ríkisins birtu svo í kvöld myndskeið af Protasevich þar sem hann segir sögusagnir um heilsuleysi sitt ekki vera réttar Ekkert ami að honum heldur sé hann í fangaklefa,  hann ætli að vera samstarfsfús og hafi játað að hafa skipulagt mótmælaaðgerðir í Minsk.

Mótmælin brutust út eftir að Lukashenko vann yfirburðasigur í kosningum í ágúst á síðasta ári. Mótmælendur héldu því fram að brögð hefðu verið í tafli. 

Það eru því ekki allir sannfærðir um ágæti myndbandsins af Protasevich.  Svetlana Tikhanovskaya, sem bauð sig fram gegn Lukashenko í fyrra, kom fram í svipuðu myndskeiði áður en hún flúði land. Hún sagði á Twitter í dag að Protasevich hefði augljóslega verið hótað til að gera myndskeiðið. 

Leiðtogar víða um heim hafa fordæmt aðgerðir Hvítrússa. Lettnesk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau hefðu vísað öllum hvítrússneskum diplómötum úr landi. Stuttu áður höfðu stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi vísað þaðan lettneskum diplómötum, eftir að Lettar flögguðu fána hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar í stað hvítrússneska fánans á alþjóðlegu íshokkímóti í Riga, til að bregðast við handtöku Protasevich.

Auk Letta hafa Litháar, Eistar og Pólverjar kallað eftir því að flugumferð um hvítrússneska lofthelgi verði ströng takmörk sett og samgönguyfirvöld víða í Evrópu hafa ráðið flugfélögum frá því að fljúga yfir Hvítarússland.

Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í kvöld að banna flugvélum frá Hvítarússlandi að fljúga inn í lofthelgi sambandsins. Þeir kröfðust þess jafnframt að Protasevich og kærustu hans, Sofiu Sapega, yrði tafarlaust sleppt úr haldi.