Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiðigarðar og stíflur koma til greina í Nátthaga

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir fyrirséð að stærra mannvirki þyrfti í Nátthaga en í nafnlausa dalnum til að stýra hraunflæðinu. Í vikunni verður ákveðið hvort og þá í hvaða aðgerðir verður ráðist í til að verja Suðurstrandaveg.

„Við erum að skoða í rauninni hvaða möguleikar eru í stöðunni. Við fórum í þessa aðgerð upp á fjalli [í nafnlausa dalnum svokallaða] af því það var tiltölulega einföld framkvæmd sem hægt var að fara í. Við reyndar vonuðumst eftir betri árangri, en aðstæður breyttust þarna upp við gosstöðvarnar og hraunið fór að streyma eiginlega allt til suðurs í áttina að Nátthaga. Þannig þessir garðar sem við höfum sett upp þar dugðu styttra en við höfðum gert okkur vonir um,“  segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögegluþjónn hjá almannavörnum.

Gæti þurft stærra mannvirki í Nátthaga

Sérfræðingar eru ekki á einu máli um það hvað það tekur hraunið langan tíma að flæða úr Nátthaga. Ágiskanir hafa verið frá einni til tveimur vikum í einn til tvo mánuði. Rúmlega tveir kílómetrar eru frá Nátthaga í Suðurstrandaveg. 

Rögnvaldur segir að ekki sé búið að taka ákvarðanir um hvort eða til hvaða varna verður gripið í Nátthaga. Það þurfi að skoða betur í vikunni. „Þegar við fórum í þetta þarna upp frá var fyrirséð að það þyrfti töluvert lengra og stærra mannvirki niðri heldur en uppi,“ segir Rögnvaldur.

En hvaða varnir koma til greina? „Það yrðu mögulega einhvern veginn leiðigarðar, sem beina hrauninu í einhverja átt fremur en aðra. Eða að setja upp svipað mannvirki eins og fyrir ofan Nátthaga. Í þeim tilgangi að stækka baðkarið, ef við getum orðað það þannig. Þannig að svæðið sem getur tekið á móti efni og geymt það verður þá stærra og meira og þar af leiðandi seinkað framganginum að Suðurstrandaveginum og fram í sjó.“

Miðlunarlón grunnskilyrði fyrir hraunskildi

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur segir á Facebook í dag að það sé að myndast miðlunarlón við gíginn. Þaðan vellur yfir í mestu kvikustrókahrinunum. Þorvaldur segir að þetta sé athyglisvert því að myndun svona lóns sé grunnskilyrði fyrir myndun hraunskjaldar eða dyngju.

Hraunið rennur ekki bara í Nátthaga heldur líka til suðurs í Geldingadali og nálgast skarð á aðalgönguleiðinni. Hraunflæði gæti farið þar yfir með tíð og tíma, sameinast öðrum hraunstraumum og lokað á síðasta hól gönguleiðarinnar, þar sem fólk kemst næst gígnum. „Það er aðeins minna í forgangi hjá okkur. En það getur alveg gerst að það muni fara yfir gönguleiðina og þá þarf bara væntanleg að leggja nýja gönguleið.“