Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eitt smit í viðbót hjá Gagnamagninu - Árný með COVID

Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Árný Fjóla Ásmundsdóttir, félagi í Gagnamagninu og eiginkona Daða Freys Péturssonar, hefur greinst með COVID-19. Hún greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni. Þetta er þriðja smitið sem greinist hjá íslenska Eurovision-hópnum og annar liðsmaður Gagnamagnsins sem reynist smitaður af kórónuveirunni.

Íslenski hópurinn kom til landsins í gær frá Rotterdam og fór í sýnatöku eins og allir sem koma til landsins. Hópurinn var bólusettur með bóluefni Janssen áður en hann hélt til Hollands og því þurftu þau aðeins að fara í eina sýnatöku.

Samkvæmt færslu Árnýjar virðist prófið hennar á flugvelllinum hafa týnst og því þurfti hún að fara í annað próf. Niðurstaðan reyndist jákvæð og því er hún komin í einangrun og allur íslenski hópurinn þarf að fara í sóttkví enda búinn að vera í nánum tengslum síðustu daga. 

Tvær til fjórar vikur geta liðið þar til bóluefni Janssen fer að mynda vörn af alvöru en það á að geta komið í veg fyrir alvarlegri veikindi.

Árný er ólétt af öðru barni sínu og Daða en framlag Íslands, 10 years, fjallaði einmitt um samband þeirra. 

Hinir tveir úr íslenska hópnum sem greindust með COVID eru enn í Hollandi ásamt Felix Bergssyni, fararstjóra íslenska hópsins. Holland er metið há-áhættusvæði af íslenskum stjórnvöldum og þurfa farþegar þaðan að fara skilyrðislaust í sóttkví á sóttkvíarhóteli nema þeir séu bólusettir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV