Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sinueldur við skotsvæðið undir Akrafjalli

23.05.2021 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Jóhannsdóttir - Aðsend mynd
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar fékk tilkynningu um eld í gróðri við skotsvæðið undir Akrafjalli klukkan rúmlega tíu í morgun. Nokkuð vel gekk að slökkva eldinn, að sögn slökkviliðsstjóra, en svæðið verður vaktað fram eftir degi. Nokkuð stórt svæði varð eldinum að bráð og ekki er vitað hvað kveikti hann.

„Við fengum fyrsta útkall um klukkan korter yfir tíu og þá var eldur laus við skotsvæðið,” segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar. „Nú klukkan hálf tólf erum við búnir að ráða niðurlögum eldsins og munum tryggja að hann fari ekki af stað aftur.”

Jens segir töluverðan fjölda fólks á svæðinu nú á morgni hvítasunnudags, enda veður gott til útivistar. Engin leið er að vita hvernig kviknaði í. 

„Við náðum snemma í þetta, en eldurinn var þó nokkur. Það er stillt og sæmilega gott veður svo aðstæður voru góðar,” segir hann. „Það eru margir vegir hingað upp eftir og margt fólk í fjallinu þannig að það getur allt gerst.” 

Slökkviðilið verður með vakt á svæðinu fram eftir degi til að ganga úr skugga um að sinubruninn fari ekki af stað aftur.