Aldrei áður í sögu Íslands í Eurovision höfum við komist í topp 10 tvær úrslitakeppnir í röð en það hefur nú gerst. Hatari endaði í 10. sæti í síðustu keppni í Tel Aviv 2019 og nú Daði og Gagnamagnið í því 4.
„Við sátum hérna á 7. hæð á þessu hóteli og fylgdumst með sjálfum okkur í sjónvarpinu lenda í 4. sæti í Eurovision,“ segir Daði Freyr pollrólegur rétt eftir að úrslitin voru ljós, eftir langt og spennandi kvöld á Atlanta nH hótelinu í Rotterdam, þar sem íslenski hópurinn hefur dvalið síðustu tvær vikur.
„Ég er rosa góður sko. Mjög hress með þetta. 4. sætið. Það er 4. sætið í Eurovision sko!“ segir hann kátur.
Eins og fyrr segir hefur Ísland einu sinni áður endað í 4. sæti, Sigga og Grétar í Zagreb. „Sigga og Grétar. Shout out á ykkur. Það voru samt færri sem kepptu þegar þið voruð að keppa, þannig að ég myndi segja að þetta sé þriðji besti árangur Íslands í keppninni,“ segir Daði glettinn.
Eins og allir vita fór síðasta sviðsæfing íslenska hópsins í loftið í beinu útsendingunni í kvöld vegna smita í íslenska hópnum. Hefði lagið náð betri árangri ef þau hefðu stigið á sviðið í höllinni og flutt 10 years þaðan? „100 prósent. Við hefðum rústað þessu ef við hefðum farið á svið. Það er engin spurning,“ segir Daði dálítið glottandi.
Stigagjöfin í kvöld var æsispennandi, hver tólfan og tían, endaði hjá Íslandi og rétt eftir að atkvæði almennings komu í hús var Ísland til skamms tíma í 1. sæti. „Þetta var pepp sko. Ég hef aldrei verið jafnspenntur að horfa á Eurovision,“ segir Daði.
Aðrir í Gagnamagninu eru eðlilega í skýjunum með kvöldið og gleðin leyndi sér ekki þegar úrslitin voru ljós. Sigrún Birna Pétursdóttir Einarsson, einn meðlimurinn, og yngri systir Daða segist ekki alveg skilja hvað nákvæmlega gerðist! „Þetta er alveg klikk,“ segir hún.
Viðtalið í heild sinni má horfa á í spilaranum að ofan.