Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Engin sátt í sjónmáli á milli ASÍ og Play

23.05.2021 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands og Birgir Jónsson forstjóri flugfélagsins Play tókust hart á í umræðuþætti á Bylgjunni í morgun. Drífa kallaði eftir því að fulltrúar stéttarfélagsins ÍFF stígi fram, en Birgir segir að Flugfreyjufélag Íslands eigi ekkert erindi að samningaborðinu.

Það hefur andað köldu á milli forystu ASÍ og flugfélagsins Play undanfarið. Eftir að embætti ríkissáttasemjara fengu kjarasamninga við Íslenska flugmannafélagið (ÍFF). Leynd hafði hvílt yfir efni samninganna þangað til og sagði Drífa Snædal að henni hafi brugðið verulega þegar hún sá efni þeirra. Samkvæmt þeim væri Play að greiða lægstu laun sem finnast á íslenskum vinnumarkaði. Miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun í vikunni þar sem flugfélagið er gagnrýnt harðlega. Lægstu laun samkvæmt samningnum séu 266.500 krónur.

„Sá samningur sem Play hefur skilað til ríkissáttasemjara er óundirritaður og ekki ljóst hvernig hann er til kominn. Þó er ljóst að hann var gerður áður en hafist var handa við að ráða inn flugfreyjur og -þjóna og enn fremur er ljóst að Play fjármagnar stéttarfélagið (ÍFF) sem gerir þennan samning. Það er því með engu móti hægt að segja að Play fari eftir hefðum og reglum á íslenskum vinnumarkaði og með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar. Við það verður ekki unað og er félagið að boða til ófriðar og deilna um ófyrirsjáanlega framtíð ef ekki verður gengið til raunverulegra kjarasamningsviðræðna við félag sem sannanlega er skipulagt af þeim sem eiga að vinna samkvæmt kjarasamningnum,“ segir í ályktun miðstjórnar ASÍ.

Fyrirtækið brást við með yfirlýsingu síðar í vikunni þar sem segir að staðhæfing ASÍ um að PLAY greiði lægri laun en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði sé röng.Þá segir jafnframt að lægstu föstu laun fyrirtækisins verði rúm 350 þúsund.

Í yfirlýsingunni er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY, að það sé „gríðarlega alvarlegt að ASÍ skuli með þessum hætti stíga fram með staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast," og sýna svo þann valdhroka að hvetja til sniðgöngu.

Á Sprengisandi í morgun tókust þau Drífa og Birgir á og er óhætt að segja að þeim hafi báðum verið heitt í hamsi. Birgir sagði það ótækt og ófaglegt að ASÍ reyni að þvinga fyrirtækið til að undirgangast efnisatriði FFÍ við Icelandair.  

„Almenningur á að fá að vita það að þegar forseti ASÍ ákveður að kalla út herdeild íslenskra launþega til að sniðganga einkafyrirtæki sem er að hefja rekstur þá á að eiga sér einhverskonar samtal áður en það er gert. Það eru ferlar í landinu. Það eru ferlar í kjaraviðræðum. Það gengur ekki að stærstu og virtustu samtök landsins taki upp stóra sverðið og haldi því upp að hálsi fyrirtækis og neyði það inn í eitthvað umhverfi  sem þið eruð búin að ákveða að sé hið gullna snið sem er kjarasamningur Icelandair við FFÍ. Þetta eru óboðleg vinnubrögð,“ sagði Birgir í þættinum.

Drífa kallaði eftir því að fulltrúar stéttarfélagsins ÍFF stigi fram og svari fyrir þau efnisatriði sem að þeim snúa. Það sé ekki í höndum Play að ákveða hverjir komi að borðinu fyrir hönd ASÍ í viðræðum á milli ASÍ og Play.

„Þú ræður því ekki hverjir mæta til fundar fyrir hönd ASÍ,“ sagði Drífa og lagði áherslu á að fulltrúi í miðstjórn ASÍ sé sérfræðingur á þessu sviði með mikla reynslu af kjaramálum á þessu sviði.

„Veistu það Birgir, ég verð að segja það að ég væri fyrsta manneskjan til að kaupa mér flugmiða með Play ef þið mynduð gera þetta almennilega og semja við almennilegt stéttarfélag, gera almennilega kjarasamninga og vanda sig við þetta því ég myndi vera fyrsta manneskjan til að fagna samkeppni. En svona aðför að gera óljósa samninga við óljóst félag þar sem er ekki vinnandi fólk sem samþykkir samninginn. Það hefur enginn getað svarað mér því hvernig þessi samningur er til kominn, það eru ekki boðleg vinnubrögð. Það er ekki bara aðför að þessari stétt, heldur öllum íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna stígum við mjög fast til jarðar.“ sagði Drífa.

Þáttinn má heyra hér.