Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samherjafólk reyndi að hafa áhrif á Blaðamannafélagið

Mynd með færslu
 Mynd: Luis Villasmil - Unsplash
Lykilstarfsmenn Samherja fóru í skipulagða áróðursherferð í aðdraganda formannskosninga í Blaðamannafélagi Íslands í síðasta mánuði til að reyna að koma í veg fyrir að starfsmaður RÚV ynni kosninguna. Þetta kemur fram í gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum. Þar segir meðal annars að starfsmenn Samherja töldu RÚV ætla að nota Blaðamannafélagið gegn Samherja.

Uggandi yfir formannskjörinu

Kjarninn birti grein í morgun upp úr gögnunum. Þar er greint frá því hvernig nokkrir starfsmenn Samherja leggja á ráðin í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosninguna hjá stéttafélagi blaðamanna, Blaðamannafélagi Íslands. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, og Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Sýn, börðust um formannssætið. Fram kemur á Kjarnanum að þetta hafi valdið áhyggjum hjá þeim hópi sem kallar sig „Skæruliðadeild Samherja“, og telur meðal annars Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðing Samherja, Þorbjörn Þórðarson, utanaðkomandi almannatengslaráðgjafa fyrirtækisins, Pál Steingrímsson skipstjóra og Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafa og fyrrverandi rannsóknarlögreglumann. Einn tekur fram, fyrir um það bil mánuði, að það megi þó ekki spyrjast út að starfsmenn Samherja séu uggandi yfir formannskjörinu og séu að hjálpa til í smölun gegn fulltrúa RÚV og því þurfi að fara fínt í þetta, eins og það er orðað.    

„PR Namibía”

Kjarninn greinir frá samskiptum Þorbjörns og Örnu á spjallborði sem nefnist PR Namibía, viku fyrir formannskjörið nú í apríl, þar sem þau kasta á milli hugmyndum um hvernig best sé að hafa áhrif á formannskjörið. Meðal annars með því að hafa samband við blaðamenn og starfsfólk tiltekinna fjölmiðla til að beita sér gegn Sigríði Dögg. Þorbjörn, sem vann í áratug sem blaða- og fréttamaður, undirstrikar að það þýði ekkert annað en að taka upp símann og smala, meðal annars inn á Hádegismóa og Torg, eins og það er orðað í Kjarnanum. Smölun Samherjastarfsmanna bar þó ekki tilætlaðan árangur, því Sigríður Dögg vann kosninguna og varð formaður Blaðamannafélagsins. 

Kortleggja tengsl blaðamanna

Í umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar í gær um sömu gögn kemur skýrt fram hvernig starfsmenn Samherja skipulögðu áróðursherferð sína gegn tilteknum fjölmiðlum og fjölmiðlafólki. Auk greinaskrifa, myndbandabirtinga og samfélagsmiðlaummæla hafa starfsmennirnir safnað saman alls kyns upplýsingum um blaðamenn og kortlagt ætluð tengsl þeirra. Á mörgum stöðum í gögnunum er andlegt ástand blaðamanna rætt og ítrekað rýnt í samfélagsmiðlahegðun þeirra til að finna höggstað á þeim. 

Ekki hefur náðst í starfsmenn Samherja.