Reiknuðu út hve langan tíma tekur að færa Daða bikarinn

Mynd: EBU / Eurovision tv

Reiknuðu út hve langan tíma tekur að færa Daða bikarinn

22.05.2021 - 16:33

Höfundar

Íslenski hópurinn í Rotterdam hefur varið síðustu dögum á hótelherberginu sínu í sóttkví, en þrátt fyrir að vera meinuð bein þátttaka í hátíðarhöldum dagsins fagna þau úrslitadeginum sem runninn er upp. Skipuleggjendur keppninnar hafa reiknað út að það þurfi að gera ráð fyrir 13 mínútum í útsendingunni sem það tekur að koma bikarnum á hótelið til Daða - ef allt fer á besta veg.

„Þetta er dagur til að fagna,“ segir Felix Bergsson brattur þegar Helga Margrét Höskulsdóttir sló á þráðinn til hans og Bjargar Magnúsdóttur í Rotterdam, í þættinum Fram og til baka á Rás 2. „Við segjum bara gleðilega hátíð og góðan daginn Ísland,“ tekur Björg undir.

Fyndið á fimmtudag en súrt í gær

Felix hefur oft fylgt íslenska hópnum í Eurovision og Björg nokkrum sinnum líka. Þau eru sammála því að þessi reynsla sé afar frábrugðin þeim fyrri. „Það er svolítið skrýtið að sitja heima á hóteli að horfa á sig keppa í Eurovision,“ viðurkennir Felix. Íslensku keppendurnir losna formlega úr sóttkví í dag en fá ekki að fara í höllina að fylgjast með keppninni í dag þrátt fyrir það.

Þeir tveir úr íslenska hópnum sem greindust með smit eru áfram í einangrun næstu daga en aðrir mega horfa saman úr grænu herbergi sem er útbúið á hótelinu. „Þetta var fyndið á miðvikudag og fimmtudag en var orðið svolítið súrt í gærkvöldi. En við erum ákveðin í að hafa þetta skemmtilegt í kvöld,“ segir Felix um stemninguna í hópnum.

Þrettán mínútna ferðalag með gripinn á hótelið

Veðbaknar hafa verið á fleygiferð síðustu daga og Daða hefur verið spáð fjórða til sjötta sæti. Það er alveg ljóst að það er raunhæfur möguleiki á fyrsta íslenska sigrinum í sögu keppninnar. En hvað ef við vinnum og íslensku keppendurnir mega ekki vera á staðnum?

Það er ljóst að skipuleggjendur keppninnar eru búnir undir þá stöðu og áætlað er að koma verðlaunagripnum beinustu leið á hótelið í hendurnar á Daða. „Ég heyrði úr höllinni áðan að það er búið að reikna út hvað það tekur langan tíma að koma glerhljóðnemanum hingað á hótelið til okkar, ef svo færi að Daði tæki þetta,“ segir Felix og hlær.

Óheppnu eyþjóðirnar allar í toppbaráttunni

Niðurstaða þeirra útreikninga er að tíminn sem það tekur sé um tólf til þrettán mínútur samkvæmt Björgu, sem minnir þó á að Íslendingar séu næstum alltaf sigurvissir en hafi aldrei unnið. Það hafa íbúar eyþjóðanna Möltu og Kýpur reyndar líka oft haldið um sig, en aldrei sigrað heldur. „En þetta eru stórfurðulegir tímar og glænýir hlutir gerast á hverjum degi þannig að það getur farið svo að við fáum sigurvegara sem hefur ekki lyft glerbikarnum áður.“ Felix bendir á að þessar þrjár óheppnu eyþjóðir séu einmitt allar í toppbaráttunni í ár samkvæmt veðbönkum svo það er allt opið.

Sviðsmynd Ö varð að veruleika

Hvað sem öllu líður er alveg ljóst að Daði og aðrir í íslenska hópnum munu ekki fá að koma nálægt höllinni það sem af er ferðinni og að inngöngupassar þeirra eru ekki einu sinni teknir gildir í höllinni. „Þetta var síðasta sviðsmyndin sem teiknuð var upp og við enduðum þar,“ segir Felix. „Þetta er sviðsmynd Ö,“ bætir Björg glettin við.

„Heitum því að þau muni fá að stíga á þetta svið“

Dvölin í Rotterdam hefur ekki verið áfallalaus og lýsir Felix henni sem miklu lærdómsferli fyrir allan hópinn. „Mest hefur maður kannski lært af þessum ungu hæfileikaríku listamönnum sem hafa farið áfram af æðruleysi og þvílíkri snilld. Við heitum því að einn góðan veðurdag muni þau stíga á þetta Eurovision-svið, kannski ekki sem keppendur en pottþétt sem gestir. Við munum koma þeim á þetta svið,“ segir hann ákveðinn og Björg er sammála.

„Við hneigjum okkur og fylgjum þeirra takti“

„Við Íslendingar getum verið svo blóðheit og farið í æsinginn en Daði og gagnamagnið eru sem róandi lyf á okkur sem erum kannski fljótari upp,“ segir hún. Þau hafa ekki látið vonbirgðin slá sig út af laginu. „Þau eru svo dásamleg, eins og Felix er að segja, og við erum að fylgja þeirra takti. Þau leggja línurnar, eru svo slök í þessum erfiðu aðstæðum og við hin bara hneigjum okkur og fylgjum þeirra takti.“

Augu allra beinast að Daða

Það hefur líka aldeilis gustað um Daða síðustu daga og nokkrir af stærstu fjölmiðlum heims hafa slegist um að ná viðtali við hann, til dæmis BBC, CNN og ástralskir og hollenskir fjölmiðlar. Því er ljóst að hvernig sem fer er hljómsveitin orðin heimsfræg og geta gengið sátt frá borði.

Ísland verður númer tólf á svið í keppninni í kvöld og það er talin mjög sigurstrangleg staðsetning. Þannig má geta að Duncan Laurence sem sigraði keppnina í fyrra var einmitt númer tólf á svið þannig að það er ljóst að allt getur gerst.

Rætt var við Felix Bergsson og Björgu Magnúsdóttur í Fram og til baka á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Okkur finnst frábært að sýna Gagnamagninu stuðning“

Menningarefni

Neikvæð próf hjá Daða og Gagnamagninu fyrir kvöldið

Tónlist

Kjósendur Daða fengu skemmtileg myndbönd að launum