Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ný slökkviskjóla til reiðu fyrir Landhelgisgæsluna

22.05.2021 - 11:43
Mynd með færslu
Mynd tekin á æfingu Landhelgisgæslunnar. Mynd: Landhelgisgæslan
Ný slökkviskjóla sem keypt var frá Kanada er komin til landsins og í vörslu Landhelgisgæslunnar, í stað þeirrar sem eyðilagðist þegar umfangsmiklir gróðureldar kviknuðu í Heiðmörk.

Slökkviskjóla er í raun sérhönnuð fata eða poki sem rúmar um tvö þúsund lítra af vatni og er hengd neðan í þyrlu Gæslunnar, sem getur síðan gusað því yfir logandi svæði eða mannvirki.

Í tilkynningu frá Gæslunni segir að búnaður sem þessi liggi ekki á lausu og því væri afar gleðilegt að nýja skjólan kæmist svo fljótt til landsins. Nýja skjólan er sambærileg þeirri gömlu, tekur um tvö þúsund lítra af vatni í hverri ferð.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í síðustu viku að hún vonaði að hægt verði að ganga frá kaupum á fleiri slökkviskjólum fyrir Landhelgisgæsluna á næstunni til að efla viðbúnað við gróðureldum. Hún sagði þarft að eiga þrjár skjólur fyrir allar þyrlur Gæslunnar.

Þyrlusveit Gæslunnar gerir ráð fyrir að æfa slökkvistörf með nýju skjólunni við fyrsta tækifæri.