Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mjög þurrt fyrir norðan og sinan eins og púðurtunna

22.05.2021 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Slökkviliðsstjóri í Austur-Húnavatnssýslu segir slökkviliðið ekki hafa búnað til að bregðast við miklum gróðureldum. Hann segir sinuna á svæðinu vera eins og hálfgerða púðurtunnu og hefur áhyggjur af því að erlendir ferðamenn séu ekki meðvitaðir um hættuna.

Hættustig vegna mögulegra gróðurelda er nú í gildi á nær öllu vestanverðu landinu og í Austur Skaftafellssýslu. Ingvar Sigurðsson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Austur-Húnvetninga hefur áhyggjur af stöðunni. „Hér er mjög þurrt. Hér er ekki búið að rigna síðan seinnipart apríl og við sitjum hérna og stöndum í sólinni í hálfgerðri púðurtunnu,“ segir Ingvar. 

Hann segir að fólk á svæðinu taki viðvörunum almannavarna alvarlega. Áfram þurfi þó að koma skilaboðum um hættuna áleiðis með markvissum hætti. „Þetta er eitthvað sem verður viðvarandi næstu árin hjá okkur vegna hlýnunar loftslags og ég held að við þurfum að passa upp á að við erum að gera okkur út sem ferðamannaþjóð og bjóða ferðamenn velkomna að kynna þeim fyrir að það er ekki bara í Kaliforníu eða á Spáni sem að hætta er á gróðureldum heldur á Íslandi líka og ég held að erlendir ferðamenn séu kannski ekki meðvitaðir um þessa hættu sem er hér,“ segir Ingvar. 

Hann segir að slökkviliðið ráði illa við mikla gróðurelda. „Í þessari stærðargráðu sem við erum hræddir um þá held ég að þetta sé hugsun sem þarf að fara af stað um búnað slökkviliða til þess að bregðast við gróðureldum. Við erum auðvitað til þess búnir að fara í eitthvað upphafsstarf en eins og við horfum á gróðurelda á Mýrum og annars staðar forðum daga þá er þetta erfitt að eiga við en sérhæfðan búnað eigum við ekki, galla og annað.“