Ísland í öðru sæti undanriðilsins

Mynd: Skjáskot / Eurovision

Ísland í öðru sæti undanriðilsins

22.05.2021 - 23:18

Höfundar

Daði og Gagnamagnið urðu í öðru sæti undanriðilsins á fimmtudag með 288 stig, aðeins þremur stigum minna en Sviss. Malta fékk flest stig í undanriðlunum, en Destiny vann fyrri undanriðilinn örugglega með 325 stig.

Malta endaði þó talsvert neðar en Sviss og Ísland í aðalkeppninni, fékk þar 255 stig, Sviss 432 og Ísland 378. Ítalía og Frakkland þurftu ekki að fara í undankeppnina. Úkraína varð í öðru sæti undanriðilsins á þriðjudag en endaði í fimmta sæti í lokakeppninni með 364 stig, og Finnland sem varð í fimmta sæti undanriðilsins á fimmtudag endaði í sjötta sæti í aðalkeppninni í kvöld.

Þrjár tólfur frá almenningi

Þrjár þjóðir færðu Daða og Gagnamagninu tólf stig með símaatkvæðum í gærkvöld, Finnar, Ástralir og Danir. Auk þess fékk framlag Íslands tólf stig frá austurrísku dómnefndinni. 10 Years fékk tíu stig frá fimm löndum, þar á meðal Austurríki og frændþjóðum okkar Svíþjóð og Noregi. Sjö dómnefndir gáfu Daða og Gagnamagninu tíu stig. Samanlagt fengu þau 198 stig frá dómnefndum og 180 stig frá almenningi.

Mat íslensks almennings og dómnefndarinnar var nokkuð frábrugðið. Finnland, Svíþjóð og Úkraína voru þrjú efstu löndin meðal almennings, en dómnefndin gaf Finnum aðeins fimm stig, Úkraínu 3 og Svíþjóð komst ekki á blað, endaði í tólfta sæti dómnefndarinnar. Dómnefndin gaf Sviss 12 stig, Portúgal 10 og Búlgaríu 8. 

Íslensku dómnefndina skipuðu þau Guðrún Gunnarsdóttir, Matthías Matthíasson, Oddný Sturludóttir, Regína Ósk Óskarsdóttir og Snorri Helgason.
 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ítalía vann Eurovision — Ísland í fjórða sæti