Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hótel landsins að taka við sér á ný

Líf er að færast í hótel landsins á ný eftir erfiðan hjalla í faraldrinum. Hótelrekendur leita nú að starfskrafti til að hafa undan í sumar.

Á hótel Búðum á Snæfellsnesi er starfsemi að færast í aukana eftir samdrátt í faraldrinum líkt og víðar og lítur út fyrir erilsamt sumar.

„Það er ekki mikið laust í júlí og ágúst, eitthvað laust í júní en við erum bara ótrúlega spennt að sjá hvernig sumarið kemur út,“ segir Berglind Arnardóttir hótelstýra. 

Og bara gaman að komast á skrið á ný?

„Já, mjög. Það er svona, mann þyrstir í smá aksjón.“ 

Bandaríkjamenn í meirihluta erlendra gesta

Eins og við má búast fer sumarið seinna og hægar af stað en fyrir COVID, en bókanir jukust mjög um leið og tilkynnt var um opnun landamæra fyrir bólusetta ferðamenn og fóru á flug nú í maí. Berglind segist ekki hafa áhyggjur af afbókunum úr þessu. 

„Áður en landið opnaðist fyrir bólusettum voru flestir búnir að seinka ferðunum sínum því þeir voru farnir að fara að sjá fram á að þeir kæmust ekki. Þannig það eru ekki margir að afbóka, en færa til því þeir eru að bíða eftir seinni bólusetningunni í sínu landi.“

Af erlendum gestum eru Bandaríkjamenn í langstærstum meirihluta, en bókanir skiptast nokkuð jafnt á milli Íslendinga og útlendinga. Á Búðum var minnkuð starfsemi í vetur og einungis opið um helgar.

„Við fórum öll á hlutabótaleiðina og nýttum okkur það. Svo erum við öll meira og minna komin af hlutabótaleiðinni.“ 

Vantar starfskraft til að hafa undan í sumar

Stærsta áskorunin sé nú að ráða inn mannskap til að mæta aukinni eftirspurn. Sama áskorun blasir við á gistihúsinu Lake hotel á Egilsstöðum. 

„Við verðum að fara í öll störf, vantar fólk í vinnu, það er stóra vandamálið hér á Íslandi í dag,“ segir Gunnlaugur Jónasson, hótelstjóri. Hann segir sumartörnina hafa farið hraðar af stað en búist var við. 

„Við vorum nú með lokað alveg til þrítugasta apríl og nú er allt að fara á fullt og gengur bara vonum framar. Meira að gera en við bjuggumst við. Það er eins og þetta sé að fara af stað. Byrjaðir að koma erlendir túristar og staðfesta bókanir.“