Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ákveðin hættumerki sjáanleg á fasteignamarkaði

Mynd: RÚV / RÚV
Ákveðin hættumerki eru farin að sjást á fasteignamarkaði og vísbendingar um að bóla sé að myndast, þar sem fasteignaverð er tekið að hækka umfram launahækkanir.

„Það er mikill hiti á fasteignamarkaðnum og mjög skiljanlegt að Seðlabankinn sé að koma og stíga þar inn í. Við erum farin að sjá ákveðin hættumerki, að við séum að fara inn í einhvers konar bólu,“ segir Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hún var gestur í Vikulokunum á Rás eitt í morgun.

Þrátt fyrir að fasteignamarkaðurinn hafi verið líflegur undanfarin misseri og verð hækkað, þá hafa launahækkanir verið meiri síðustu ár. Þar til nú.

„Þannig nú erum við farin að sjá merki um að fasteignaverðið sé farið að hækka umfram laun. Þá eru komin ákveðin merki um að það sé jafnvel að myndast einhver bóla. Svo það er mjög skiljanlegt að Seðlabankinn sé nú farinn að hafa smá áhyggjur af ástandinu,“ segir Karlotta, og tók fram að Seðlabanki Íslands væri fyrsti seðlabankinn til þess að hækka vexti á COVID-tímum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Anna Kristín Jónsdótti
Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Hún segir ástandið eiga rætur í framboðsskorti, erfitt er að byggja í takt við eftirspurn og verðið tekur því að hækka. Þá hafa lágir vextir og úrræði stjórnvalda hjálpað kaupendum, ekki síður fyrstu kaupendum.

„Okkar kenning er líka sú, vaxtalækkanirnar urðu til þess að fólk var að endurfjármagna rosalega mikið. Þá voru kannski foreldrar að taka lán, lána börnunum sínum fyrir útborgun. Það var tilfinningin líka, því við höfum aldrei séð jafn marga fyrstu kaupendur og í fyrra,“ segir Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.