Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

MDE: Sóttvarnarreglur jafngilda ekki stofufangelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði í gær einróma máli Cristian Terhes, þingmanni Rúmena á Evrópuþinginu, um að útgöngubann vegna COVID-19 í heimalandi hans hafi jafngilt stofufangelsi. Útgöngubannið var í gildi í sjö vikur.

Í úrskurði dómstólsins segir að yfirvöld hafi ekki njósnað um Terhes og hann hafi ekki verið neyddur til að hafast við í þröngu rými. Þá voru félagsleg tengsl hans ekki rofin að fullu, segir í yfirlýsingu dómsins. Skerðing á ferðafrelsi Terhes var heldur ekki næg til þess að hægt væri að líta á hana sem almenna frelsisskerðingu, hefur Deutsche Welle eftir úrskurðinum.

Terhes sagði að loknum úrskurðinum að hann ætli að halda áfram að berjast fyrir réttindum og frelsi allra Rúmena og Evrópubúa. Hann sagði að með úrskurðinum hafi dómstóllinn sýnt að Evrópa sé ekki lengur frjáls, heldur lokað eftirlitssamfélag á borð við Rússland og Kína. Samkvæmt úrskurðinum geti stjórnvöld skert frelsi Evrópubúa, svo framarlega sem þau eru samstíga í því. 

Þessar sjö vikur sem sóttvarnarreglur voru hvað strangastar í Rúmeníu ráðlögðu yfirvöld fólki frá því að yfirgefa heimili sín frá klukkan sex á morgnanna til tíu á kvöldin. Hina átta tímana var algjört útgöngubann. Íbúar gátu yfirgefið heimili sín ef þeir gerðu opinberlega grein fyrir ferðum sínum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV