Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leggja hjólastíga fyrir einn og hálfan milljarð

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Reykjavíkurborg hefur samþykkt framkvæmdir við gerð hjólastíga og er áætlaður heildarkostnaður 1,5 milljarðar króna. Framkvæmdirnar eiga að fara fram í ár en gætu teygt sig yfir á næsta ár, samkvæmt tilkynningu frá borginni.

Framkvæmdirnar eru annars vegar byggðar á hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og hins vegar samgöngusáttmála sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér.

Verkefni hjólreiðaáætlunar eru:

 • Snorrabraut – Hverfisgata – Sæbraut að gatnamótum við Borgartún
 • Borgartún – Snorrabraut að Katrínartúni
 • Sörlaskjól – Faxaskjól
 • Háaleitisbraut – Bústaðavegur að Fossvogsstíg
 • Álmgerði – Hæðargarður lokafrágangur
 • Elliðaárdalur – Rafveituheimili að Bíldshöfða
 • Þverársel – Stígur fyrir ofan ÍR

Verkefni sem heyra undir samgöngusáttmálann:

 • Kjalarnes við þjóðveg 1 fyrsti áfangi.
 • Elliðaárdalur stígur í stað hitaveitustokks
 • Svarthöfði – tenging við Stórhöfða
 • Gufunes – tenging við Borgarveg
 • Gufunes – lokakafli strandstígs fyrir höfðann í Grafarvogi
 • Rauðavatnsstígur lokakafli

Einnig eru undir þessu tengingar stíga í Elliðaárdal við stíga í Fossvogsdal. Þá stendur til rýmka til fyrir gangandi og hjólandi á núverandi brú  á Bústaðaveg yfir Kringlumýrarbraut. Einnig verður lagður stígur í Elliðaárdal frá Höfðabakka að Vatnsveitubrú.

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg

Heildarkostnaður vegna þessara verkefna er 1,5 milljarðar króna en þar af er kostnaður Reykjavíkurborgar áætlaður um 920 milljónir króna, segir í tilkynningu frá borginni. Þar kemur fram að samkvæmt fjárhagsáætlun séu 500 milljónir settar í hjólastíga á ári en í ár sé fjármagn aukið, meðal annars vegna viðspyrnuáætlunar borgarinnar vegna COVID-19.