Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hátt í þriðjungur 16 ára og eldri fullbólusettur

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Hátt í 30% Íslendinga eru nú fullbólusettir og mismunandi er eftir landshlutum hvaða árgöngum hefur verið boðin bólusetning. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að handahófskennd bólusetning hefjist í næstu viku.

Nú hafa um 164.000 Íslendingar fengið að minnsta kosti einn skammt af kórónuveirubóluefni, eða rúm 55%. Um 85.500 eru fullbólusettir, eða um 28%. Bólusett verður í öllum heilbrigðisumdæmum í næstu viku, á höfuðborgarsvæðinu verður bólusett  á miðvikudag og fimmtudag, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en hún var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás tvö í dag.

Ragnheiður segir að mismunandi sé eftir landshlutum hvaða aldurshópum hafi boðist bólusetning.

„Það gæti verið á einhverjum litlum stöðum úti á landi að þar náist að taka árgangana svona langt niður. Við á höfuðborgarsvæðinu erum komin niður í 1972, ´73 og ´74 í að vinna með árganga og svo erum við að fara í „random“.

Hún segir að byrjað verði á handahófskenndri bólusetningu í þar næstu viku. Reynt verði að boða fólk með góðum fyrirvara. „Við höfum svo lítinn fyrirvara sjálf. Við vitum svo seint hvað við fáum mikið efni, þannig að fyrirvarinn er yfirleitt frekar stuttur hjá okkur. Svo fer það fer eftir mætingu hvers dags, þá erum við alltaf að klára efnið og þá lenda sumir í því að vera boðaðir samdægurs,“ segir Ragnheiður.