Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dýr tekin af viðskiptafélaga Joe Exotic

epa07747071 Indrah, a nine-year-old Sumatran Tiger during International Tiger Day at Melbourne Zoo in Melbourne, Australia, 29 July 2019.  EPA-EFE/DANIEL POCKETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Lagt var hald á 68 stór kattardýr í dýragarði í Oklahoma í Bandaríkjunum í vikunni. Bandaríska dómsmálaráðuneytið greindi frá þessu í gær. Dýrin voru á búgarði hjónanna Jeffs og Laurenar Lowe.

Jeff Lowe var áður viðskiptafélagi Joseph Maldonado-Passage, sem er betur þekktur sem Joe Exotic. Lowe kemur þó nokkrum sinnum fram í heimildarþáttunum Tiger King sem sýndir eru á Netflix, og nutu mikilla vinsælda á fyrri hluta síðasta árs. Yfirvöld segjast hafa farið í þrjár eftirlitsferðir á búgarði Lowe hjónanna síðan í desember og bent þeim á fjölda brota á umönnun þeirra. Þau eru sökuð um brot á lögum um dýr í útrýmingarhættu og lögum um dýravelferð, að sögn fréttastofu BBC

Á búgarðinum voru sjö ljón, 46 tígrisdýr, 15 blendingar ljóns og tígrisdýra og einn jagúar. Mörg dýranna voru með kvilla í beinum sökum kalsíumskorts. 

Í yfirlýsingu yfirvalda segir að hjónin hafi áreitt opinbera starfsmenn í eftirlitsferðum þeirra, þar á meðal hótaði frú Lowe að drepa einn þeirra. Í yfirlýsingunni segir að hótunin hafi verið sérstaklega ógnandi vegna fyrri viðskiptatengsla þeirra við Joe Exotic, sem situr í fangelsi fyrir að ráða leigumorðingja til að drepa keppinaut í öðru ríki Bandaríkjanna.

Joe Exotic afplánar nú 22 ára dóm fyrir að hafa ráðið leigumorðingja, auk dýraníðs.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV